Regnúði eins og silkislæða

Helgin var græn. Gróðurinn teygði sig og teigaði regn og birtu. Hitinn um 15 gráður. Norðaustan andvari lék við lauf hríslnanna. Það er sérstök sýn að sjá laufið á öspinni tifa og blakta. Asparilmur lá í loftinu.

Þá er birkið komið vel á veg. Lerkið frá því í hittifyrra lýsir upp reitinn sinn. Elrið vekur vonir með breiðum blöðum og grenið, sem álitið var dautt í fyrra, leynir á sér. Allt voru þetta bakkaplöntur settar í jörð síðustu fjögur til fimm ár. Afföllin frá gróðursetningu í fyrra voru talsverð. Af völdum þurrka og hita í júní og júlí. Vatnsveita bóndans þornaði. Ekkert vatn til leiguliða og því ekki hægt að vökva.

Nú er vorið eins og best verður á kosið. Við blönduðum mold og húsdýraáburð í börur. Stungum niður einum bakka af ösp. Gáfum matskeið af blákorni. Svo kom regnúði eins og silkislæða. Maður snýr andlitinu á móti úðanum. Hann ýrir, hlýr og þekjandi.

Ásta setti nokkrar stjúpur við stíginn heim að kofanum. Einnig í kassann í klukkuverkinu. Loks heilsuðum við öðrum hríslum. „Sæl vertu drottningin,“ sagði Ásta við blágrenitítlu sem hún kallar svo. Hún vex ekki hratt. Svo eru nokkrar hvítgreni og margar birki, þá reynir og furur. Alaskavíðir umhverfis lóðina.

Allt svo grænt og við einnig. Að innan að minnsta kosti, í sálinni, þar sem gleðin á sér upphaf á góðum degi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.