Það var margt fólk í Hallgrímskirkju á þriðja tímanum í dag þegar við Ásta komum þar við á leiðinni vestur á Landakot til að heimsækja Ingibjörgu frá Hlöðutúni. Félagar í Mótettukór Hallgrímskirkju lásu Passíusálma Hallgríms Péturssonar.
Amigos para siempre – Vinir að eilífu
Í fermingarveislu Bryndísar Margrétar Audibert í gær kom lítill hópur jafnaldra hennar og söng þrjú lög fyrir veislugesti. Það var ánægjulegt. Fyrsta lagið sem þær sungu var kunnuglegt þótt íslenski textinn væri það ekki.
Hrífandi málverkasýning
Það er hrífandi málverkasýning á Kjarvalsstöðum um þessar mundir. Myndir eftir færeyska málarann Mikines frá Mykines-eyju. Þarna eru dimmar myndir frá dánarbeðum, þar sem andrúm sorgarinnar ríkir, húsamyndir frá Mykines-eyju fullar af sól og glaðlegum litum. Og portrett.
Fann svo sárt til með manninum
Þegar fólk vegna aldurs hefur verið sett út af vinnumarkaði og tekur að glíma við að finna nýjan takt til að lifa í, gerist eitt og annað mismunandi ómerkilegt í tilveru þess til að byrja með. Sem dæmi, þá geta innkaupaferðir í matvöruverslanir, sem áður voru fremur leiðinleg nauðsynjaverk, orðið ríkuleg tilbreyting í hversdagsleikanum sem hægt er að fá talsvert út úr. Ef áhugi er á því.
Púkinn og páskaeggin
Hafði áætlað að baka í dag. Kraftbrauð og hveitibollur til að eiga yfir páskana. Þegar til átti að taka vantaði mig hveiti og gul epli. Eplin fara í kraftbrauðin ásamt sveskjum og sólblómafræi, sesam, hörfræi og fleiru. Svo rak ég augun í tómatpúruna. Hún þarf alltaf að vera til. Þetta var í Nettó á Salavegi.
Ég mótmæli líka
Fann þessa mynd vafrandi um netið. Hún skýrir sig sjálf.
Hefðarfrúrnar í París og Öryggisráðið
Það var altalað að fyrir hundrað árum eða svo, hafi fínar frúr í París, og víðar, leigt ófríðar konur sér til fylgdar um götur borgarinnar þegar þær fóru í tískubúðir að versla og á önnur mannamót. Var hugmyndin sú að með því að hafa illa tilhafðar og óásjálegar manneskjur við hlið sér, yrði hlutur þeirra hefðarfrúnna betri við samanburðinn í augum samborgaranna.
Grimmir og gráðugir hundar
Við gengum skyldugöngu okkar í dag, ég og Beinagrindin. Enda hafði læknirinn, sem sagaði í bakið í okkur, lagt til að við reyndum að ganga daglega. Það væri nauðsynlegt fyrir hrygginn. Í morgun fórum við nýja leið.
Hvaða misseri eru það?
Þurfti að fara fyrir Beinagrindina í Heilsugæslustöð í morgun. Hún kemst ekki af án verkjalyfja eftir að sagað var inn í hrygginn á henni fyrr í vetur. Nú lærði ég hvað Guðlaugur heilbrigðisráðherra er flinkur og útsjónarsamur stjórnmálamaður. Til að börn fái þjónustu heilsugæslulæknis ókeypis, færði hann kostnaðinn einfaldlega yfir á eldri borgara. Flottara hefði mér þótt að færa kostnaðinn yfir á eftirlaun alþingismanna. Þar er nóg af peningum.
Leitin
Veistu hvað ég hef leitað lengi? Nei. Veistu að hverju ég hef leitað svona lengi? Nei. Veistu hvað það er að leita? Það brennur á. Það brennur á og kemur alltaf aftur og aftur. En ef þú vilt vera með í hópnum þá lætur þú eins og þú hafir fundið það. Það, sem þú veist ekki einu sinni hvort þú varst að leita að. Eða hvort þú yfir höfuð varst að leita.
