Jam Session

Við gengum niður eftir strætinu. Komum að lítilli auglýsingu í glerskáp. Það var jam session. Við litum inn af rælni. Fremur lítill salur. Talsvert af fólki og hljómsveit að koma sér fyrir á palli. Meðlimir hljómsveitarinnar í sínum daglegu jakkafötum, fólk um fertugt, fimmtugt, hversdagslegt og tilgerðarlaust. Þau stilltu hljóðfærin. Stemningin vafðist um okkur og við tókum sæti. Setið var við flest borð. Sumir, heimamenn, nikkuðu til okkar. Meðalaldur yfir fimmtugu. Kannski voru allir heimamenn.

Svo tóku þau að spila. Svellandi djass. Stuð á fólkinu. Það var gaman. Þarna var básúna, gítar, trompet, trommur. Skömmu síðar kom hávaxinn kona, hugsanlega fertug, í salinn. Hafði meðferðis rafmagnsbassa. Hún var hluti af hljómsveitinni og það lifnaði yfir körlunum þegar konan tók að plokka bassann. Og þau bættu í kraftinn. Það var feikna stuð.

Og það fjölgaði í salnum. Ekki fengu allir sæti. Og fólk tók að dansa framan við pallinn, tvö þrjú pör í einu í feikna sveiflu og við fundum þytinn þegar þau strukust við okkur. Svört kona í eldrauðum leðurbuxum kom í salinn og allir virtust fagna henni og hún valdi sér karl og þau dönsuðu af lífi og sál og hljómsveitin spilaði af lífi og sál og við skemmtum okkur af lífi og sál. Og nutum kvöldsins.

Í einni pásunni kom básúnuleikarinn að borðinu okkar og ræddi við okkur eins og við hefðum þekkst alla ævi. Það jók á ánægjuna og þegar pásan var búin kvaddi hann okkur eins og bestu vini sína. Þetta var kvöld í Buchananstreet í Glasgow, eitt af þessum kvöldum sem minna á sig reglulega og vekja ljúfan söknuð. Við vorum þrjú saman, frú Ásta, Gunnbjörg og ég.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.