Gertrude Stein og Company

Fjórtán ára gamall fór ég sumarstrákur í sveit að Gilsbakka í Hvítársíðu. Í viðbót við öll ævintýri unglings á nýjum slóðum kynntist ég þar rithöfundinum Hemingway. Það var með bókinni Klukkan kallar. En á Gilsbakka var bókasafn ungmannafélagsins og þangað komu margar bækur.

Fyrstur til að lesa þessa bók um sumarið var Magnús Sigurðsson, sem síðar varð bóndi þar. Næstur las hana Hafsteinn Austmann, síðar listmálari og loks kom röðin að mér. Síðan þá hefur Hemingway verið einn af mínum uppáhalds.

Löngu seinna las ég Veisluna í farangrinum, um Parísarár Hemingways og kynntist þar hópi af furðulegum listamönnum sem söfnuðust til Parísar, ljóðskáldum, rithöfundum og listmálurum. Allt þetta lið hefur verið mér eins og vinahópur í gegnum lífið. Vinahópur sem ég hef leitað til á hinum ýmsu götuslóðum lífsins.

Miðdepillinn í þessum hópi var ameríski rithöfundurinn Gertrude Stein sem bjó í rue des Fleurus 27. Þangað sótti hinn fjölbreytti hópur listamanna og meðal annarra Hemingway. Lagskona og einskonar ráðskona og jafnvel ástakona Gertrude var hin stórfurðulega Alice B. Toklas sem réði húsum og sá um eldhúsið og mannaráðningar, vinnukonur og eldabuskur.

Ein af mörgum eldabuskum sem hún réði var hin Pólsk-Ameríska Agnel,sem átti erfitt meðað elda franskan mat. Einn af þeim réttum sem hún eldaði og Gertrude og Toklas líkaði best, var pólskur kjúklingaréttur í ofni.
En hann er einmitt tilefni þessara skrifa minna, því ég eldaði hann í dag og þær borðuðu með mér frú Ásta og dóttir okkar Gunnbjörg sem er á leið til Ameríku í fyrramálið.
Máltíðin tókst vel og allir ánægðir.
Segi þetta svona til gamans.

Eitt andsvar við „Gertrude Stein og Company“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.