Áttræður karl í nýjum skóm

Á 80 ára afmæli mínu fyrir ári, lét ég það eftir mér af of þroskaðri sjálfselsku að gefa sjálfum mér nýja spariskó. Hef haft það orð á mér að nýta skó allt of lengi. Þetta eru fallegir brúnir skór.

Það var svo núna um hádegið sem ég ákvað að ganga þá smávegis til. Fór niður í Smáralind, en þar er ágætt göngufæri og áformaði að skoða nýju verslun Eymundson og bók Kristjáns Árnasonar, ljóðaþýðingar. Get þess að Kristján er í uppáhaldi hjá mér. En verðið á bókinni er of hátt svo að hún verður að bíða vinnings í HHÍ.

Sem við gengum þarna um, en auðvitað var frú Ásta með mér, urðum við sammála um að bækur væru of dýrar fyrir eldri borgara úr verkamannastétt. Ræðandi þetta skaut frú Ásta því að að í umræðunni væri að lækka virðisauka á bókum. Það er svo sem rétt, – en ætli útgefendur ásælist ekki þann bata.

Hvað skóna mína varðar þá vorum við harla sáttir eftir gönguna, skórnir og ég og gætum hugsað okkur að endurtaka leikinn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.