Íslensk öndvegisljóð

Ég var svo heppinn að frú Ásta, þessi umhyggjusama kona, skenkti mér nýju bókinni Íslensk öndvegisljóð, sem Bjartur gaf út fyrir skemmstu. Þetta var um morgun  í liðinni viku í upphafi ferðar til fárra daga dvalar í sveitinni.

Gleði mín og tilhlökkun voru talsverð, ekki síst þar sem Páll Valsson valdi ljóðin. Og á fyrsta degi las ég bókina áfram og síðan aftur á bak. Get því sagt að ég hafi lesið hana aftur á bak og áfram. Það var gert á nokkru hraðbergi til að kynnast bókinni, líkt og maður þefar af hráefni við undirbúning matseldar.

Ýmislegt má um bókina segja. Bókarhönnun og  umbrot koma mér mest á óvart. Skil ekki alveg hvað vakti fyrir þeim sem það önnuðust en á einhvern hátt finnst mér bókin grautarleg.

En skáldin og ljóðin eru yndisleg og ánægjuleg lesning. Gamlir vinir og yngri. Og ýmsir sem saknað er. Bæti einhverju við við nánari kynni. Læði hér Steini Steinarr með til gamans.

Hin mikla gjöf

Hin mikla gjöf sem mér af náð er veitt
og mannleg ránshönd seint fær komist að,
er vitund þess að verða aldrei neitt.
Mín vinnulaun og sigurgleði er það.

Margt getur skeð. Og nú er heimsstríð háð,
og hönd hvers manns er kreppt um stál og blý.
En eitt er til sem ei með vopni er náð,
þótt allra landa herir sæki að því.

Það stendur af sér allra veðra gný
í annarlegri þrjósku, veilt og hálft,
með ólán sitt og afglöp forn og ný,
hinn einskisverði maður: Lífið sjálft.

(Steinn Steinarr)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.