Þeir falla frá, einn og einn, holtararnir sem voru hluti af lífi manns í æsku. Fólk sem maður hitti ekki í sextíu til sjötíu ár, en eru samt svo sterk í minningunum og það bregður fyrir viðkvæmni í brjósti manns við lestur minningargreinanna um þau.
Á þeim árum voru græn tún allt um kring, kýrnar frá Eskihlíð voru reknar um götur og börn í leik blésu í biðukollur. Svo komu bretarnir og þar næst amerikanarnir og lögðu undir sig túnin og settu upp girðingar kringum sig. Þar næst komu steypubílarnir og mótadjöflarnir og túnin og biðukollurnar hurfu. Og svo hverfur samtíðarfólkið og svo hverfur maður sjálfur.
Og fljótlega eftir það hverfur streitan og andúðin á stjórnmálamönnum. Bjarni í Litla-Bæ gerðist þjónn í útlöndum. Lúlu á nítján var ein af fallegustu stelpunum og gerðist sjö barna móðir. Öll fóru hvert í sína áttina. En æskuminningarnar ylja, þessi þúsund litlu atriði sem gerðu lífið svo gott á milli élja.