Líf mitt einfaldast nokkuð hratt þessi árin. Fer sjaldnar og sjaldnar á mannamót. Kannski er fælni um að kenna. Oftar þá verðlagningu aðgöngumiða. Enda er ég eldri borgari og illa liðinn af stjórnvöldum.
Þrátt fyrir einföldunina kemst ég ekki hjá því að mæta hjá læknum. Í kerfisbundnar skoðanir. Og þar hitti ég stundum fólk. Ein slík heimsókn til læknis var í morgun kl. 10:20.
Biðröð var við glerið þar sem fjórar konur önnuðust skrifræðið. Ég fór í röðina. Loks var ég næstur og steig fram. Þurfti að hinkra því að eldri maður kom inn. Hann var dálítið hokinn, rýr og tinaði, óöruggur. Og gekk með löbbu. Mér fannst ég kannast við hann. Þegar ein konan bak við glerið hafði tölvað mig inn og sagt mér hvert ég skyldi halda, ( eins og ég vissi það ekki eftir 30 ára reynslu) ákvað ég að heilsa gamla manninum með löbbuna.
,,Ertu ekki holtari?“ spurði ég og lagði hendi mjúklega á aðra öxl hans. Hann lyfti höfðinu, horfði skáhallt upp til mín og svaraði játandi. Svo birti yfir honum og hann mundi nafnið mitt. Næstum því. Og síðan sagði hann: ,, Ég er bara alltaf að hitta holtara. Fyrir helgi hitti konuna á …..götu þrjú.“ ,,Manstu hvað hún heitir?“ spurði ég. ,,Nei, hún vann stundum í Raggabúð.“ Ég var engu nær.
Svo var komið að þessum gamla manni að mæta við glerið hjá konunum og við kvöddumst. Þegar ég var lagstur á bekkinn í hjartalínuritinu og konan búin að festa á mig sogskálarnar, rifjaðist upp fyrir mér að gamli maðurinn er sex árum yngri en ég.