Samtal á Svarfhóli. II

„Þú varst nú ekki jólasveinslegur á þeim árum,“ sagði Rabbi.
„Nei,sennilega ekki.“
„Þú grenjaðir stundum á kvöldin.“
„Kvöldin voru verst.“
„En voru ekki allir heldur góðir við þig?“
„Það var helst þú.“

Rafn glotti. Við sátum enn austan undir íbúðarhúsinu og það var gott á milli okkar. Nokkur atvik standa upp úr þegar ég lít til baka. Við mösuðum. Ég rifjaði upp atvik sem gjarnan minnir á sig þegar minnst er á Svarfhól.

Það var lítið um verkefni fyrir lítinn strák um vorið. Þá elti maður fullorðna fólkið og horfði á það dútla hitt og þetta. Fékk sjaldnast nokkra hlutdeild í viðfangsefnunum. Það var leiðinlegt. Rjátlaði þá gjarnan út í móann skammt frá bænum. Þar urpu lóur og hrossagaukar. Og spói. Hrossagaukurinn vandist mér. Ég sagði honum raunir mínar.

Á bænum voru gæsir. Stórar, hvítar og bústnar. Þær görguðu ótæpilega og blésu eins og þær hvæstu. Einn daginn hafði hurðin á gæsakofanum fallið af efri hjörinni og hékk skökk á þeirri neðri. Þeir tóku hurðina og lögðu hana á jörðina. Bóndinn og Rafn. Svo lögðust þeir á hnén og tóku að bjástra.

Ég, strákrolan, stóð þögull skammt frá. Gæsirnar kjöguðu um og bitu gras.
„Sæktu pundara upp í skemmu strákur,“ sagði bóndinn allt í einu, höstugur, án þess að líta upp. „Pundara?“ hugsaði ég. „Veru fljótur,“ bætti hann við. „Það er stór hamar,“ sagði Rabbi. Mér létti og sæll að fá að taka þátt þaut ég af stað eins og eldibrandur.

Var örskotsfljótur og rétti Jósef pundarann. Hann snéri sér að mér og sló mig utanundir. Fast. Og ég sem ætlaði að fá hrós. Með tárin í augunum rölti ég út í móann og sagði hrossagauknum frá helvítis kallinum. Um kvöldið sagði Rabbi mér að Jósef hefði slegið á fingur á sér og meitt sig.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.