Tvær raddir og gítar

Hvar í heimi sem kristnir menn dvöldu um jól og hvert sem örlögin höfðu borið þá, hvort heldur í faðm fjölskyldu, vina, ættmenna eða á hinar dapurlegri brautir, vígvöll, sjúkrahús fangelsi, þá er það vitnisburður langflestra að hjarta þeirra fylltist af viðkvæmni á því augnabliki sem hátíðin hófst.

Minningar úr bernsku yfirtóku tilfinningalífið, þegar allir sem gátu prýddu hjarta sitt og deildu út hlýrra fasi, orðum og athöfnum en þeir í nokkurn annan tíma gátu af sér gefið. Og nutu þess að gefa, þiggja og vera saman.

Sameiginlegt tákn um innreið jólanna í flestum löndum hins kristna heims, er innifalið í laginu Stille Nacht, Silent Night, Glade jul, Douce Nuit eða Heims um ból.. Laginu sem varð til á jólunum árið 1818 og er því orðið 195 ára.

Ljóðið varð til á aðfangadagskvöld, þegar séra Josef Mohr, tuttugu og sex ára gamall prestur sem þjónaði í litlu þorpi skammt utan við Salzburg, var á heimleið niður fjallshlíð í sókn sinni eftir að hafa heimsótt konu fátæks kolagerðarmanns og blessað hana og nýfætt barn hennar. Séra Mohr var hrærður í huga og um nóttina orti hann sálminn.

Hann ákvað að gefa vini sínum, Frans Xaver Gruber, sálminn í jólagjöf, en Gruber var kennarinn í þorpinu og orgelleikarinn í þorpskirkjunni. Fór séra Mohr til hans snemma næsta morgun. Gruber las sálminn tvisvar yfir og hreifst af honum og sagði: „Þetta er sálmurinn sem okkur hefur vantað.” „ En við þurfum lag við hann,” sagði séra Mohr. Orgelið í kirkjunni var bilað og þurfti Gruber því ekki að vera við messuna en notaði tímann til þess að semja lag.

Þar sem orgelið var bilað var ekki hægt að kynna sálminn á hefðbundinn hátt, en Gruber notaðist við það sem tiltækt var og setti lagið út fyrir tvær raddir og gítar. Og þannig var það flutt í fyrsta sinn. Presturinn og kennarinn sungu lagið saman og léku undir á gítar. Heims um ból, lagið sem allur hinn kristni heimur syngur um jól og kallar fram yl og hlýju í hjörtum milljóna manna um víða veröld. Sálminn sem varð til á jólum og óx upp úr jólaguðspjallinu í hjörtum tveggja vina. „Ég boða yður mikinn fögnuð… …því að yður er í dag frelsari fæddur, friðarhöfðingi, undraráðgjafi.”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.