Á sinfóníutónleikum: Yndis – vængjum þínum nær

Fórum í Eldborg í gærkvöldi. Hjónin. Höfum ekki náð okkur á strik fyrr síðan Sinfóníuhljómsveitin flutti úr Háskólabíói. Margt kemur til. Meðal annars dulinn ótti við höllina miklu og nafntoguðu, Hörpu.

En í fáum orðum sagt, þá var kvöldið yndislegt. Strax við komuna í bílastæðahúsið mætti okkur ungur starfsmaður sem vísaði veginn í stæði. Framkoma hans einkenndist af alúð og ljúfmennsku.

Sama elskulega viðmótið mætti okkur þegar við, fákunnandi, spurðum til vegar í húsinu. Og loks vísað til sætanna. Yfir okkur hrifin af glæsileik Eldborgar, fyrirkomulagi, litum og ekki síst góðum sætum, vorum við nokkurn veginn orðlaus af aðdáun.

Það var sterk upplifun, eftir rykmökkinn á Austurvelli, að setjast þarna inn. Sjá hljómsveit og kór koma sér fyrir og heyra klið gesta þagna. Í hugann kom vers í frásögunni af Elía: ,,,,Og eftir storminn […] kom blíður vindblær.“ Og eftir storminn kom – Beethoven, hvíslaði ég að Ástu.

Við sátum þarna gagntekin. Og þegar Níunda tók að hljóma hélt maður niðri í sér andanum. Svo komu einsöngvararnir inn: ,,Fagra gleði, guða logi…“ Og þegar risavaxinn kórinn og hljómsveitin tóku á öllu sínu fylltist húsið gjörsamlega af einskonar algleymi. Það var stórkostlegt.

Frumtextinn er eftir Friedrich Schiller og þýðing hans eftir Matthías Jochumsson.
Orð og tónlist. Algleymi.
,,…
Þínir blíðu töfrar tengja,
tízkan meðan sundur slær;
allir bræður aftur verða
yndis-vængjum þínum nær.” M.J.

Þakklát og hrærð ókum við heim í mjúku sumarkvöldinu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.