Í húsi föður míns: Hjónabandslög og fátækt fólk

Það fór ekki framhjá þjóðinni að þjónar í húsi Guðs komu saman til að ræða málefni hússins. Mest bar á umræðum um ný hjónabandslög. Tillögu um þau var vísað til biskups og kenningarnefndar með 56 atkvæðum gegn 53. Það virðist samt styttast í að nýju lögin verði samþykkt.

Af orðum margra presta og guðfræðinga má skilja að ný hjónabandslög eru þeirra hjartans mál. Það er vel. En í húsi föður míns eru mörg híbýli eins og ritað er. Í einu þeirra er fólk sem setur reglur úr fornöld efst og telur sig þjóna Guði best með því að halda fast við þær.

Í öðrum er fólk sem kýs að opna öllum borgurum sama aðgang að hamingju þeirri sem ást, vinátta og samlíf, lætur í té og blessa þá í mildum mannelskandi anda Krists, „sem rann upp …sem rótarkvistur úr þurri jörð.“ Vorregn himinsins mun gefa sprotanum vöxt.

En það voru fleiri mál rædd í húsi föður míns í liðinni viku. Fátækt fólk. Fátæk börn. Það hryggði mig hve lítill gaumur var gefinn þeirri umræðu. Fram kom að ríflega ellefu þúsund börn eiga atvinnulausa foreldra. Hjá 500 þeirra eru báðir foreldrar án atvinnu.

Ekki get ég varist þeirri hugsun að börnin sem búa við vaxandi óhamingju, vegna skerðingar á afkomu foreldra, hljóti að verða fórnarlömb sorgar, biturðar og beiskju, sem vafalítið leiði þau til andfélagslegs viðhorfs, þar sem grátur og gnístran tanna er daglegt brauð.

Í húsi föður míns

Það hefði yljað mjög ef 109 atkvæðabærir þjónar í húsi föður míns, hefðu samið og samþykkt aðgerðaráætlun um að setja fátæk börn og ungmenni í forgang í öllu starfi sínu og heitið því, að gefa þeim af öllu hjarta og öllum mætti umhyggju og græðandi elsku.

Eitt andsvar við „Í húsi föður míns: Hjónabandslög og fátækt fólk“

  1. Ég held að mjög margir þeirra séu til þess reiðubúnir…og þá aðallega þeir sem kunna að setja sig í spor þeirra sem halloka fara. Og gettu nú! 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.