Ómur orðsins

Senn lýkur sumarleyfinu. Og þar með tíma til að hvílast. Við höfum notið þeirra forréttinda, hjónakornin, að vera í sveit svo til í mánuð. Kúplað út frá daglegu amstri og hreinsað hugann. Við smíðar og fleira þeim tengdum. Hreinsað hugann? Það er nú kannski full mikið sagt. Mér sýnist það sé ekki eins einfalt og það hljómar. Hugurinn er nefnilega margslunginn staður. Og ekki einfaldur í meðförum.

Frelsarinn sagði að guðsríki væri hið innra með manninum. Hvað er þetta „hið innra” með manninum? Átti hann við hugann? Hann sagði einnig: „Þér eruð þegar hreinir vegna orðsins sem ég hefi talað til yðar.” Orðið sem hann hafði talað til lærisveina sinna fjallaði um „sannleikann ”, (með ákveðnum greini) og „sannleikurinn mun gera yður frjálsa.” Og þá vakna ótal spurningar. Eins og til dæmis sú hvað er að vera frjáls?

Svo voru til aðrir vitringar sem ráðlögðu fólki og sögðu: „Segðu ekki: Ég hef fundið sannleikann, segðu heldur ég hef fundið sannleika.” Í því framhaldi vaknar spurning um það hvort til séu margir sannleikar. Viðhorf til þeirra fer væntanlega eftir því hvað það er sem menn þrá. Sem dæmi má áætla að sjúkur maður þrái að verða heilbrigður. Lamaður maður að geta gengið. Blindur maður að fá sjónina. Fátækur maður að komast í álnir. Fangi að verða frjáls. Og að sjálfsögðu, eftir kenningu Nietzsches, að höndla þá hamingju sem felst í því að finna „vald sitt aukast.”

En það eru ekki allir sammála um dýrð valdsins. Alan Paton ritar: „…ég á vin, sem kenndi mér, að valdið spillir mönnunum.” Og þá erum við að verða komin í hring. Eins og vindurinn í orðum Qoheleths: „…hann snýr sér og snýr sér og hringsnýst á nýjan leik.”

Já, hugurinn er margslunginn staður. Og það er ekki einfalt að hreinsa hann. Virðist svo að allt sem eitt sinn fór um huga mannsins muni búa þar á meðan „silfurþráðurinn” heldur. Og þótt einhverjir láti sér lynda að búa með skuggunum í helli sínum, þá er það naumast frelsi frekar en örlög blinda mannsins sem aldrei sá neitt ljós.

Eitt og annað þessu líkt var í samræðum okkar spúsu minnar í móanum í sveitinni. Vangaveltur um tilveruna og lífið. Upprifjanir, endurminningar og reynsla. Eins og við sjáum það. Fátæk í anda og veröld. Og hlökkum til að koma aftur til starfa, til þátttöku í amstri dægranna og leggja lið. Og hljómur Orðsins ómar í margslungnum huganum: „…því sjá, ég er með yður..” Ómur Orðsins.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.