Þegar við bróðir minn, blessuð sé minning hans, vorum litlir drengir, þá eignuðumst við myndavél. Þetta var kassamyndavél, 6 x 20, með tveimur stillingum. Sól og skýjað. Við tókum ekki margar myndir því við urðum að kaupa filmurnar sjálfir og borga framköllun. Vorum auðvitað alltaf blankir eins og sönnum smástrákum á Holtinu sæmdi.
En þetta breyttist hjá mér með árunum. Í Búrfelli 1968 eignaðist ég notaða reflex vél, 35 millimetra. Keypti hana af sænskum manni. Stórkostlegt tæki. Nú átti ég fyrir filmum og framköllun og tók margar myndir. Fimm árum seinna fékk ég Pentax Spotmatic. Keypti hana í Fótohúsinu sem þá var í Garðastræti, hjá Trausta Thorberg. Á hana enn. Snjáða og gullfallega. Yndislegt tæki. Næst kom svo Mamiya 645. Þá þaut nú blóðið aldeilis um æðarnar. Og hausverkurinn byrjaði.
Það er nefnilega þannig með þessi litlu heilabú, eins og mitt, þau kveinka sér þegar á þau eru lögð verkefni sem þau eru ekki byggð fyrir. Og þegar hausverkurinn er einu sinni byrjaður þá verður maður að endurtaka allar nýjungar tvisvar, þrisvar eða fjórum sinnum, án þess að taka magnyl. Og svo hefur þróunin í gerð myndavéla ætt áfram af miklum hraða og vaxandi, þessi fimmtíu og fimm ár, þveröfugt við litla heilann í mér sem hefur hægt á sér með hverju árinu.
Og nú er komið Digital. G3 heitir hún. PowerShot. Canon. 4.0 Mega pixlar. Þetta er lítið og samanþjappað rafeindaapparat með stjórntækjum eins og mælaborð í þotu. Og hausverkurinn vex. Maður reynir að tileinka sér vélina með hvíldum. Sér svo að hún getur allt. Bókstaflega allt. Nýtingin strandar á eigandanum. Stjórnandanum. Og hann er með hausverk. Og neitar sér um magnyl. Ennþá.
Það er engin filma. Maður tengir vélina bara við tölvuna sína og hún tekur að sýna manni myndirnar sem maður þóttist taka. Þvílíkt og annað eins. Og einn daginn fór ég út á svalir og tók mynd af útsýninu af sjöundu hæð. Þá var sólin komin út úr regninu sem hafði hangið yfir svo lengi. Og smellti mynd. Þrátt fyrir hausverkin. Og nú ætla ég að vígja þessa möguleika og gera eina æfingu, þrátt fyrir vaxandi höfuðverk. Áætla að setja hérna mynd sem tekin er á sjöundu hæð.
Ekki tókst þetta í þessari umferð. Fer og fæ mér eina magnyl. Reyni svo síðar.