Munkarnir þrír

Einsetumennirnir þrír er lítil frásaga eftir rússneska rithöfundinn Leo Tolstoy. Hún fjallar um þrjá einfalda munka sem bjuggu á afskekktri eyju. Eftir því sem höfundur sögunnar segir, gerðust stundum kraftaverk á bænastundum munkanna. Ein aðalbæn þeirra var svona: „Við erum þrír, þú ert þrír, miskunna þú oss.”

Biskupinn heyrði af munkunum þrem og ákvað að heimsækja þá og kenna þeim að biðja formlega og á viðeigandi hátt. Þegar hann hafði lokið við það þá dró hann upp seglin á báti sínum og bjóst til heimferðar. Á siglingunni til lands sá hann allt í einu hvar ljósker nálgaðist bátinn hans. Voru þar komnir munkarnir þrír hlaupandi á vatninu.

Þegar þeir komu að báti biskupsins sögðu þeir: „Við höfum gleymt leiðbeiningunum þínum og langar að þú farir yfir þær með okkur.” Biskupinn hristi höfuðið og sagði auðmjúkur: „Gleymið því sem ég hef kennt ykkur og biðjið áfram á ykkar hátt.”

Þessi frásaga dregur fram þá þýðingarmiklu niðurstöðu um bænina að hún á að vera einföld. Sleppa skal öllu orðagjálfri sem flækir og ruglar. Prestur nokkur, Daníel Lord að nafni, hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði, í ævilok, við ungan mann sem hann leiðbeindi: „ Hafðu bænina einfalda. Talaðu við Guð eins og föður, við Krist eins og bróður og við Heilagan anda eins og staðfastan félaga.”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.