Hið góða sjálft

[01/01/03 — 14:31]
Vinakveðja. Vina-nýárskveðja. „Þér eruð vinir mínir,” sagði Kristur við lærisveina sína. Ég man hvernig setningin verkaði á mig þegar ég las hana fyrst. Hún var fjarlæg. Ópersónuleg. Svo varð einhver þróun. Kristur kom nær. Varð persónulegur. Og orð hans einnig. „Þér eruð vinir mínir,” breyttist í „þú líka, ert vinur minn.” Þessi þróun sem varð, gjörbreytti lífi mínu.

Það er alls ekki auðvelt að nálgast Krist. Flestir vilja hafa hann í einhverri, þeim hæfilegri, fjarlægð. Slíkir kynnast honum aldrei mikið. Kannast bara við hann. Það virðist líka vera þannig með blessaðan frelsarann, að sumir laðast að honum miklu meira en aðrir. Svo eru þeir sem forðast hann. Hægt er að álykta sem svo, að því uppteknari og ánægðari sem einstaklingur er með sjálfan sig, því erfiðara eigi hann með að nálgast Jesúm.

Það má líkja þessu við birtu. Þegar sólin rennur upp hætta stjörnurnar að sjást.

Hvað um það. Vinátta Jesú Krists og vinátta við Jesúm Krist, er þeim sem þess njóta, ómælanlegur fjársjóður. Í neðanmálsgrein í Siðfræði Níkomakkosar, segir um orðið vinnátta: „Hugtakið er mun víðfeðmara en íslenska þýðingin gefur til kynna. Stundum væri nær að tala um ástúð, vinsemd eða eitthvað slíkt.” (síðara bindi. bls. 149). En elska og ástúð er einmitt aðaleinkenni á Kristi Jesú, orðum hans og athöfn. Hann er hið góða sjálft.

Með þessum orðum óska ég þér, lesandi minn góður, farsæls komandi árs og þakka þér innilega fyrir heimsóknir á heimasíðuna mína. Ég gleðst yfir þeim. Einlæglega. Finn að vináttan lifir. Það er mér mikils virði. Guð blessi þig.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.