Cessna 150 og Guðmundur R. Óskarsson

Hann lánaði mér flugvélina sína. Það var afar spennandi. Þegar út á flugvöll kom fór ég yfir flapsana, stélstýrið og mældi bensínið í tankinum. Ég var glaður í sinni og raulaði lagstúf. Dáðist að vélinni. Svo kom ég mér fyrir inni í vélinni og setti í gang.

Mjúklegt vélarhljóðið hjalaði við mig. Kallaði svo í turninn og fékk leyfi og taxaði á brautarenda. Allt gekk þetta vel og leyfi til að taka á loft. Flaug svo hring yfir Reykjavík. Það var heiðskírt veður, logn og snjóföl yfir landinu. Fullkomið veður til að dóla austur, yfir Hengil og hringsóla. Talsverð umferð bílaumferð á Suðurlandsvegi, gufustrókar upp af virkjunum og Þingvallavatn eins og djásn í vetrarskrúðanum.

En það er lítið að gera í svona flugi og óþolinmóðir menn endast ekki lengi í tilgangslausu flugi. Stefndi loks í vestur og fékk þá flugu í hausinn að prófa að fljúga undir brú. Lækkaði flugið og allt leit þetta vel út. En svo kom þessi smellur. Vinstri vængurinn rakst í brúarstöpulinn og rifnaði af og vélin skall í jörðina.

Ómeiddur kom ég mér út úr henni og horfði skelfingu lostinn á flakið. Svo fór ég að velta fyrir mér hvernig ég ætti að segja Guðmundi frá þessu. Og skelfing mín jókst. Það var þá sem ég vaknaði.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.