Í tilefni afmælisdagsins
Við bjuggum okkur í sveit. Ég bakaði súrdeigsbrauð.
Tartines Country Bread. Keyptum smá af ýmsu með.
Í Pylsumeistaranum. Hunangsskinku. Lifrarkæfu. Ögn af öðru.
Og hrossabjúga í Reykofninum. Ég réði því. Og rauðar kartöflur.
Svo var harðfiskur með og smjörvi. Í tilefni dagsins.
Í gær, 29. fórum við Hvítársíðuna. Krókinn, sem svo er nefndur.
Ásta ók. Ég talaði um fólkið sem bjó á bæjunum fyrir 65 árum.
Þá var ég strákur í sveit. Um margt þess á ég hlýjar minningar.
Guðmundur á Kirkjubóli var einn af þeim og konan hans.
Jón Pálsson á Bjarnastöðum og Páll Jónsson.
Þá Sigurður eldri á Kolstöðum og Guðmundur Sigurðsson.
Guðmundur lagði sig fram um vinsemd við mig.
Hann var ljúflingur.
Kenndi mér að lagfæra brotna reykjarpípu með spenagúmmíi.
Þá átti Hallkelsstaðafólkið streng í sálinni í mér.
Erlingur og Jórunn. Var sendur upp í Hólmavatn með Erlingi.
Lögðum net og veiddum silung.
Suma daga kom ég með 100 fiska heim að Gilsbakka.
Reiddi þá heim í tveim pokum á klakk á Myldingi.
Svo var Sigurður á Þorvaldsstöðum og Bergþór eldri í Fljótstungu.
Nú er allt þetta fólk farið. Löngu látið.
Þriðja kynslóð frá þeim gjarnan tekin við.
Fólk sem ég þekki ekki neitt.
Ég var þar strákur í sveit á Gilsbakka.
Sigurður Snorrason og Anna Brynjólfsdóttir réðu húsum.
Og Magnús Sigurðsson beið eftir eiginkonu.
Minningarnar eru óteljandi. Flestar góðar.
Hinar nefnir maður ekki.
Á Gilsbakka hitti ég Ástu mína. Það var 1951. Í maí. 24. maí.
Og við erum saman enn.
Hún ekur mér núna og ég þvaðra.
Í tilefni dagsins. Þvaðra.
Ég gæti haft um þessi löngu liðnu ár þrjú hundruð sjötíu og fimm þúsund orð.
Hið minnsta. En það er ekki hægt í svona afmælisbloggi.
Bloggi sem er einskonar framhald af þvaðri gærdagsins.
Ég átti afmæli í gær. Vorum í sveitinni.
Það var góður dagur.