Minnsti expressó sem ég hef séð.

Við fórum til Reykjavíkur í morgun, hjónin. Það hefur staðið til um nokkurt skeið. Erindið var að nýta inneignarnótu í Máli og menningu á Laugavegi. Hef ekki komið þar í tíu ár. Ekki síðan starfsmaður lítillækkaði mig fyrir framan fjölda fólks. Fram að því hafði ég komið þar þúsund sinnum.

Það var hluti af tilverunni, í gegnum árin, að koma þar við og renna nefinu eftir bókahillunum. Eitt sinn vorum við Elín G. Ólafsdóttir á hnjánum að lesa á kili erlendra bóka í neðstu hillu á efri hæðinni. Það þótti mér upphefð. Nú er allt breytt þarna.

Tveir drengir í afgreiðslu. Staðsettir við kassa við útgöngudyrnar. Þrír viðskiptavinir fyrir utan okkur Ástu. Tómlegt. Líflaust. Spurði um bók. Fékk ekki svar. Áður fyrr starfaði þarna fólk sem vissi svo til allt um bækurnar í búðinni og gekk rakleiðis að þeim. Ef ekki þá fletti það upp í tölvu. Lagði sig fram og vildi allt fyrir mann gera. Þá var búðin lifandi og uppörvandi að koma þar.

Eftir að hafa skoðað okkur um komum við að kassanum. Mér varð á að gantast við annan drenginn. Það hefði ég ekki átt að gera. Eftir allmörg kling og rop í kassanum prentaði hann út 40 sentímetra langan strimil. Við höfðum keypt þrjú atriði. Meðal annars disk með Bergþóru Árnadóttur.

Fámál og dálítið undrandi gengum við til baka að bílnum. Ákváðum að líta við í Te og kaffi. Frammi við dyr pantaði Ásta sér capuccino, sjálfur valdi ég tvöfaldan expresso. ,,Komið þið með það til okkar að borðinu?“ spurði ég. ,,Nei, þið verðið að sækja það hingað.“ Ég leit á stelpuna sem afgreiddi. Hún var heldur ánægð með sig. Ég fór og valdi sæti innst í kaffistofunni og rifjaði upp í huganum gamla tíma þegar þarna var fataverslun.

Skömmu síðar kom Ásta með kaffið og rétti mér annan bollann. Ég get varla sagt að ég sé búinn að ná mér enn. Þessi tvöfaldi expresso var í mesta lagi 15 millilítrar og borinn fram í capuccino bolla.

Kominn heim hugga ég mig við Bergþóru Árnadóttur sem syngur ,,Nótt í erlendri borg.“ Sé ekki að ég eigi erindi á Laugaveginn í bráð.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.