Íslandsklukkan. Almúgamaður í leikhúsi.

Þessi árin finn ég fyrir feimni þegar við hjónin förum í leikhús. Og í gærkvöldi vottaði einnig fyrir kvíða. Á milli mín og bókarinnar hefur ríkt sérstakt tilfinningasamband sem mótað hefur persónur og atburði með ástúð og virðingu. Um áratugaskeið.

Það var óvænt og mikil ánægja að sjá tök Benedikts Erlingssonar á bókinni. Af umhyggju og virðingu hefur hann skapað leikverk sem er langt umfram væntingar. Segja má að heildarmyndin sé eins fullkomin og hægt er að búast við í leikgerð bókarinnar. Tréskórnir voru hæfilegur skammtur af Hollandi.

Og allt ber að sama brunni. Leikmyndin er stórkostleg. Einfaldar uppsetningar og skiptingar heilla mann en segja samt allt sem segja þarf. Búningar glæsilegir, jafnt skartklæði sem tötrar og lýsing og tónlist og raddir, allt verður til þess að gera sýninguna glæsilega.

Leikararnir standa sig hver öðrum betur þótt hlutverk þeirra séu misstór. Sérstaka aðdáun vekur Ingvar Sigurðsson í hlutverki Jóns Hreggviðssonar. Hann er einn af þessum sem gerir allt vel og í þessu hlutverki vekur hann sömu samúð sem snæraþjófurinn Jón vekur í bókinni. Kæmi mér ekki á óvart að Ingvar unni Jóni.

Lilja Nótt leikur Snæfríði Eydalín. Hún er falleg kona í fallegum búningum, oftast, og með mikið ljóst hár. Persónan er margslungin, kannski snobbuð og ekki öll þar sem hún er séð. En hún lifir tímanna tvenna í sögunni, já eða þrenna, og skilar Lilja hlutverkinu vel.

Hlutverk Lilju og Björns Hlyns sem asseors Arnas Arnæusar eru samofin og ástarsamband þeirra einlægt. Björn skilar hlutverki Árna vel, en hvergi virtist ástríða hans eins heit og þegar hann kafaði í rúmbotn kellingarinnar á Rein, þar sem „gaus upp ryk og ólyfjan þegar farið var að róta í bæli kellíngar, því hey var gamalt og margmyglað í bálkinum.“

Magnús í Bræðratungu í höndum Björns Thor er óborganlegur sem og Jón Marteinsson í höndum Stefáns Halls Stefánssonar. Þessir tveir setja eftirminnilegan svip á leikverkið og skerpa myndina af persónunum í bókinni. Bráðskemmtileg frammistaða.

Ilmur Kristjánsdóttir leikur Grindvicensis, …„strýhærðan, með geldingsaugu, litlausar brár…ekki laus við riðu…en kækir hans voru hinsvegar ekki múgamanns…“ og salurinn skellihló um leið og Ilmur birtist og tók að túlka manninn. Það fór vel á því að hafa konu í hlutverkinu.

Dómkirkjupresturinn séra Sigurður Sveinsson er ekki náungi sem heillar áhorfendur en það gerir leikur Jóns Páls Eyjólfssonar prýðilega. Og eins og bókin endar, þá endar leikverkið þar sem þau yfirgefa almúgann „Snæfríður Íslandssól í svörtu; og hennar ekta kærasti Sigurður Sveinsson látínuskáld, kjörinn biskup til Skálholts. Þau ætla vestrá land að gera úttekt á föðurleifð hennar sem hún náði undan kónginum aftur.“

Að sýningu lokinni fann ég fyrir gleði yfir frábæru kvöldi í Þjóðleikhúsinu og þakklæti til þeirra sem gáfu okkur miða.

Eitt andsvar við „Íslandsklukkan. Almúgamaður í leikhúsi.“

  1. Skemmtilega jákvæður leikdómur 🙂 En Benni gerir líka allt vel!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.