Ópið, á þriðja degi

Þegar líða tók á gærdaginn og lítið rofaði til í hausnum á mér sagði Ásta: „Þú ættir að mæla þig.“ Mér þótti það ekki svaravert. Svartsýnin var kökkþykk. Ákvað að fara út. Anda að mér rakri áramótasúldinni. „Tak hnakk þinn og hest,“ sagði Benediktsson. „Tak sæng þína og gakk,“ sagði Jósefsson. „Tak bíl þinn og ak,“ sagði Ágústsson.

Sem leið lá ók ég í vesturbæinn. Fór að leiði föður míns. Þar var logn og hlýtt. Kyrrð. Ég kveikti á kerti í dós og setti við steininn. Ágúst Ólafsson, skósmiður. 1907 – 1961. Ræddi við hann dágóða stund. „Manstu pabbi minn, þetta og hitt? Þá leið okkur nú vel. Og við hlógum saman. Nei. Við hlógum ekki oft. En það var gott að halda í hönd þína.“

Ópið eftir Edward Munch
Ópið eftir Edward Munch

Svo ók ég út í Örfirisey. Ætlaði að hitta kunningja á Fiskislóð. Þeir voru ekki við. Þræddi því næst miðbæinn. Fjöldi útlendinga á göngu. Pör og paraleysi sem dvöldu yfir áramót til að fylgjast með rakettuheilkennum Íslendinga. Margir héldu utan um spúsur sínar. Axlir eða mitti. Merki um vel heppnað ástarlíf í ókunnu landi. Það er yndislegt að gista í ókunnu landi með elskunni sinni. Og njótast.

Súld hugans léttist örlítið. Umferðin fremur hæg. Einn og einn tætti þó fram úr hverjum einasta bíl. Manngreyin. Óðir í bensínfætinum. Loks kom ég við í Mosfellsbakaríi á Háaleitisbraut og keypti sætabrauð handa Ástu. Hundrað áttatíu og fimm krónur. Afgreiðslustúlkan var fríð. „Fleira?“ spurði hún. „Nei takk,“

Undir kvöld endurtók Ásta: „Þú ættir að mæla þig. Þú ert heitur.“ Ég mældi mig. Hún hafði rétt fyrir sér. Ég skreið undir sæng. Hugsaði: ..reis á þriðja degi upp…“ Vona að mér takist það.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.