Mamúska

Mögnuð frásaga af magnaðri lífsgöngu. Hóf lestur hennar tortrygginn. Enda kominn á þann aldur að líka vel við fáar bækur. En byrjunartextinn, fyrstu níu línurnar hrifu mig. Einmitt svona eiga línur að vera. Og þær urðu til þess að ég las bókina hvíldarlítið.

Mögnuð frásaga um magnaða konu og djöfullega heimstyrjöld sem hrakti fólk burt frá heimkynnum sínum, vinum sínum og ættmennum. Og eignum. Og fjölskyldan flúði þessa löngu leið, ,,…1372 kílómetra, frá Vilníus til Frankfurt, að mestu leyti fótgangandi.“

Í Frankfurt hefst svo ævintýrið um Scarlet Pimpernell, Rauðu Akurliljuna, veitingastaðinn í kjallaranum í Krögerstrasse 7, þar sem fullyrt var ,,að máltíð þar væri stórbrotin upplifun og auk þess utan mætti drekka, syngja og daðra fram undir morgun, stæði hugur manns til þess.“ Og bókin fjallar um mat, mikinn mat og miklar matarveislur, mikið Vodka og söng og dans. Margir þekktir listamenn koma við sögu, nöfn sem allir kannast við úr heimspressunni.

Halldór Guðmundsson vinnur hug þessarar óvenjulegu konu og með þeim tekst sérstök vinátta. Seinna ákveður hann að skrifa ævisögu hennar. Þau tvö eru því með lesandanum svo til á hverri blaðsíðu og lífsganga ömmunnar, sú hrikalega saga og alvarlegur undirtónninn skilar sér með þeim hætti að það er ekki auðvelt að leggja bókina frá sér.

Að lokum tek ég mér bessaleyfi og tilfæri nokkrar línur úr bókinni: ,,Það þarf ekki að líta lengi í kringum sig í íbúðinni hennar til að sjá að hún er sanntrúaður kaþólikki. Á veggjum eru alls staðar helgimyndir, einkum og sér í lagi madonnumyndir. ,,Ég get sagt þér það að kirkjan er ekki heilög. Þú átt að trúa á guð en ekki á prestana. Ég var orðin byltingarkona strax fimmtán ára gömul, barnið mitt, og var steinhætt að trúa á prédikanir í kirkjum. En ég trúði á guð.““

Og hún bætir við: ,,Pólski páfinn var bestur, vitur, og líka ódýrastur í rekstri. Sá þýski (þetta var á tíma Benedikts páfa) vill herma það eftir honum en hann er alltof stífur og klæðist alltof dýrum búningum. Ég hef skömm á þessum dýra klæðnaði! Kristur átti ekkert nema kuflinn sinn, og Rómverjar tóku hann af honum.“ Bls. 163.

Mamúska. Sagan um mína pólsku ömmu eftir Halldór Guðmundsson.
Mögnuð frásaga. Vel skrifuð og grípandi.

2 svör við “Mamúska”

  1. Sæll Glúmur.

    Takk kærlega fyrir þetta.
    Dásamleg tonlist og dásamlegar endurminningar frá Selfossi þegar
    þú komst okkur Ástu upp á lagið. Hafðu ævinlega þökk fyrir það.

    Bestu kveðjur Óli Ág.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.