Í Morgunblaðinu í gær, 12. janúar bls. 14-15, er myndröð af snjómokstri í Reykjavík á síðustu öld. Fyrsta myndin sýnir hvar menn handmoka snjó upp á vörubíla í janúarlok 1952. Undir myndinni segir: 250 manns við snjómokstur í Reykjavík. Náði snjódýptin 48 sentímetrum 1. febrúar. Myndin vakti endurminningar frá þessum tíma.
Í þessum 250 manna hópi vorum við bræðurnir. Ég var þá 15 ára. Við fengum úthlutað nokkrum dögum í atvinnubótavinnu. Fjórum dögum í viku, í tvær vikur. Í okkar hlut kom Njarðargata og næsta umhverfi. Ungir og hressir mokuðum við af miklu afli. Vörubílar voru minni en þeir sem þekkjast í dag og ekki mikið verk að fylla bílpallinn, enda margir um hvern bíl. Síðan kom hlé meðan þeir óku niður að sjó og sturtuðu hlassinu þar.
Mér er minnisstætt hvað við vorum fatalitlir og illa skóaðir. Slíkt tilheyrði gjarnan fátækum heimilum. En gleðin yfir því að fá vinnu lyfti okkur yfir alla armæðu. Ein aðalfrétt landsmanna þessa dagana var andlát Sveins Björnssonar, forseta Íslands, sem lést 25. janúar. Er ég ekki frá því að einhverskonar virðing við Svein forseta hafi mótað andrúmsloftið að nokkru.
Ég sökkti mér í þessar endurminningar í gærmorgun við lestur blaðsins. Sat í hálfrökkri í íbúðinni og rifjaði upp þessa daga og samtöl okkar bræðranna og hvarf til fortíðarinnar. Sagði svo stundarhátt við Steindór bróður: „Manstu eftir einhenta karlinum í síða frakkanum, hvernig hann sveiflaði skóflunni þótt enginn snjór væri á henni?“ Þegar ég leit upp mundi ég að Steindór bróðir lést árið 2002.
Hugsaði um þessar snjóendurminningar þínar í dag. Ég man vel þessa daga þegar handmokað var á vörubíla.
Í gær sá ég aftur á móti vélarnar að verki. Fyrst kom dráttarvél með diskaherfi og tætti sundur ruðningana á gangstígnum. Svo kom vél með tönn og skóf snjóinn í hrúgur og að lokum mokaði svo vélskófla þessum óhreina snjó upp á stóran trukk.
Ekki veit ég var herlegheitunum var svo sturtað.
Mikið var gott hvað heitavatnslagnirnar voru illa einangraðar í gangstéttunum í þá daga. Snjórinn bráðnaði fljótt og fljótlega varð þurrt þar sem heitt vatn rann undir. Úr Skólavörðuholtinu niður í Miðbæjarskóla var næstum hægt að komast á þurrum hellum alla leið þó allt væri á kafi í snjó hinum megin við götuna.
Þakka þér fyrir góðan pistil.
Skemmtileg hugrenningatengsl.
Það er ekki víst að Steindór hafi svarað þér. En ekki fráleitt að hann hafi nú samt verið hjá þér.
— Skemmtileg pæling hjá þér.