Þá var hún þakin laufi

Dvöl í sveit yfir liðna helgi. Veðrið og tilveran umvefjandi. Í mörgu tilliti. Nýtt lauf skríðandi fram á öspunum. Grænt, gljáandi, ilmandi lauf. Birkið fer sér hægar. Lerki skartar ungu barri. Næturdögg í bunkum á öllum gróðri.

Mófuglinn kættist yfir blíðunni. Það var spenna í tilhugalífinu. Í loftinu, móanum og trjágreinum. Maríuerlupar lét eins og við værum hvergi nærri. Þau voru í átstarleik. Kvenfuglinn lét karlinn ganga á eftir sér. Þau þeyttust um. Loks gaf hún sig. Rétt við fætur okkar. Það tók fljótt af.

Ókum morgunferð um sveitina. Fyrir hanagal. Vor í hverjum kima. Minningar í hverjum krók. Þarna er lækjarsytran sem við drukkum úr fyrir sextíu árum. Lögðumst á hnén á bakkanum og löptum með tungunni eins og útvalið lið Gideons.

En það er ekki alltaf vor. Lækurinn þekkir tvenna tíma eins og mannfólkið þekkir tvenna tíma. Það gerir roskin hrísla við vegbrún einnig. Hún er föl og fálát. Þrestir setjast ekki lengur á stökkar greinar hennar. Við kynntumst henni fyrir sextíu árum. Þá var hún þakin laufi og fuglar himinsins fjölmenntu á mjúkum greinum hennar.

Og býlin. Hlutskipti margra hefur breyst. Þar sem voru græn og grösug tún og búfé allt um kring, hefur sina og sölnuð grös nú litað skákir sem sviti bústólpanna breytti úr þýfðum móum í véltækar flatir.

Mannlaust hús ber við himin. Tungumál þess er þögnin. Við ókum í henni. Hugsanir endurlifðu vordaga lífs okkar.

2 svör við “Þá var hún þakin laufi”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.