Rætur gróðurs – greiða lífinu leið

Það er þægilegt að vakna við þyt vorregns. Sálin bregður við líkt og jörðin sem hneppir frá sér og lyftir andliti mót vætu og yl. Þögul. Þakklát. Rætur gróðurs rétta úr veikburða þráðum og greiða lífinu leið.

Í mannheimi er svart og sykurlaust sötrað af nautn. Tvöhundruð síðum dagblaða hagrætt á borði og skipt til helminga milli hjóna. Þögul stund fer í hönd. Regnið hjalar við rúður.

Eftir að hafa flett dagblöðunum nokkuð hratt og metið hvað væri vert að lesa og hvað ekki, staldraði ég við lærða grein í Lesbók, bls. 54 í Sunnudagsmogga. Hún er um hurðina í Hallgrímskirkju og er eftir Þóru Þórisdóttur. Við lestur greinarinnar undirstrikast vel hvað lítið vit ég hef á myndlist, þótt ég hafi af henni mikla unun.

Listaverk Leifs Breiðfjörð

Þóra segir að útfærsla hurðarinnar hafi valdið sér vonbrigðum. Mig hafði hún glatt mjög og hrifið. Fljótlega eftir að hún var sett upp fór ég og skoðaði hana og tók myndir af henni. Þóttist ég sjá í henni biblíulegan boðskap um þjáningu og dauða Krists sem er í huga mínum og skilningi forsenda og kjarni kristinnar trúar og það þrönga hlið sem liggur til þess lífs sem Kristur boðaði.

Eftir að hafa farið mörgum listfræðilegum orðum um hurðina lýkur Þóra grein sinni með eftirfarandi orðum: „…en um leið er gott að árétta að smekkur manna, túlkanir og upplifanir eru mismunandi og engin ástæða til að láta neikvæð orð eyðileggja fyrir þeim sem kunna vel að meta hurð passíuþjáninganna.“

Þetta eru sanngjörn orð. Þau gefa meira rými en algengt er þegar fjallað er um trú og trúartákn. Fyrir mitt leyti, þá upplifi ég og túlka hurðina á Hallgrímskirkju, eftir Leif Breiðfjörð, sem áhrifaríkt og heillandi biblíulistaverk. Listaverk sem túlkar boðskap sem greiðir lífinu leið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.