Rithöfundar, skáld og ástfóstur

Aftur og aftur upplifi ég þessa umvefjandi hlýju sem skáldin og rithöfundarnir önduðu inn í brjóst mitt þegar ég var ungur maður. Og hugtakið ástfóstur lýsir upp hugarfylgsnið. Mér virðist að þetta sé gagnkvæmt hjá okkur. Mér og höfundunum. Ég ann þeim og þeir mér.

Auðvitað reyni ég að lesa og skoða yngri höfunda. Legg mig meira að segja fram um að verða dús við þá. Les þá í djúpum stól, les þá gangandi um og les þá í rúminu. En einhvern veginn náum við ekki saman í bókaherberginu mínu. Nema örfáir.

Vissulega er ég fordómafullur þegar kemur að bókum. Upplifi stundum að mér er meinilla við höfunda eftir kynningar, auglýsingar og umtal í fjölmiðlum um þá sjálfa og bækur þeirra. Geri mér fullljóst að þetta er persónugalli í mér. Og ekki sá eini.

Það er líkast því að á langri leið hafi myndast einskonar girðingar í huganum. Man eftir því að skömmu eftir fermingu las ég spakmæli sem sagði nokkurn veginn svona: Veldu þér fáa rithöfunda, góða og lestu þá vel. Það virtist ekkert vefjast fyrir mér hvaða rithöfundar væru
góðir og hverjir ekki. Það hefur þó eitthvað slípast með árunum.

Þeir góðu framkölluðu, framkalla, einskonar samsvörun í huga manns. Þú stansar við hnyttna setningu , andar djúpt og lest hana aftur. Eða jafnvel tvær þrjár blaðsíður fyrir framan setninguna til að fanga kjarnann betur. Þá kemur stundum fyrir að þú finnur þyt.

Það er eins og orðin í bókinni, sagan sem þau segja og það ósagða, byggi á reynslu höfundanna og skilningi þeirra á blæbrigðum í lífi fólks. Nái að snerta dulda strengi og framkalla samhljóm sem ekki er hægt að lýsa með orðum. Maður upplifir það. Kemur ekki orðum að því.

Lesandi tekur ástfóstri við slíka höfunda. Þeir fylgja honum gegnum lífið. Koma aftur og aftur og vekja svipuð viðbrögð. Hvar sem maður fer og hvernig sem manni vegnar. Bókaherbergið verður griðastaður og bækurnar, höfundarnir og persónur þeirra, blása lífsanda í brjóst manns.
Víst er ég þakklátur.

Eitt andsvar við „Rithöfundar, skáld og ástfóstur“

  1. Já, og einhver sagði: „Það er ekki efni eða búningur bóka sem mestu varðar, heldur andrúmsloftið sem fylgir þeim.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.