Þegar Jóhanna Sig talar

Margir hafa látið í ljós mikla ánægju með svör og framkomu Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, í Kastljósi fyrr í vikunni. Er og nokkuð augljóst að gleðin sú er einkum yfir því hvað Jóhanna, að þeirra dómi, stóð sig með eindæmum illa.

Morgunblaðið er einkar hamingjusamt með þáttinn og eyðir talsverðu púðri í að skilgreina vanhæfni Jóhönnu fyrir lesendum sínum. Sá ágæti maður, Styrmir Gunnarsson, orðar það þannig í Sunnudagsmogganum, þegar hann talar um Kastljósþáttinn; „.…sýndi að í þessum efnum (atvinnuuppbyggingu) hefur forsætisráðherra ekkert fram að færa.“

Það er ekki auðvelt fyrir venjulegt fólk að greina staðreyndir í orðum stjórnmálamanna. Það er augljóst að þeir tala að minnsta kosti tveim tungum og ætla orðum sínum að sannfæra kjósendur um eitthvað annað en raunverulega stöðu mála. Það getur því verið skynsamlegt fyrir ráðamenn að hafa sem fæst orð um ágæti sitt og auðveldar lausnir.

Því miður fær almenningur aldrei að sjá á öll spilin hjá stjórnmálamönnum. Þannig var það í tíð fyrri ríkisstjórna. Þeirra sem sigldu þjóðarskútunni í kaf. Þannig er það einnig með núverandi ríkisstjórn og erfitt að átta sig á hvert hún stefnir. Slík taktík er eins og hvert annað böl undir sólinni.

Hvað sem sagt er um núverandi ríkisstjórn þá liggur ljóst fyrir að hún er kosin af þjóðinni til að stjórna landinu. Og hvort sem henni tekst bærilega eða ekki, þá eru engar líkur á að stjórnarandstöðunni tækist betur upp, því að á bak við hana standa öflugir hagsmunahópar sem vilja eiga Ísland og afkomu þjóðarinnar eins og þeir áttu árum saman.

Þegar sólin er lágt á lofti verða skuggarnir langir. Venjulegt fólk verður að glíma við lífið í þessum skuggum. Það er ekki auðvelt. Ríkisstjórnin má ekki gleyma orðum sínum um ,,fólkið og heimilin í landinu.“ Það er vandi að heita vinstri stjórn, ..„og hafa ekki til þess unnið.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.