Forsetinn, sáttin og froðan

Margir héldu tæpast vatni þegar forsetinn neitaði að skrifa undir lögin frá Alþingi fyrir skemmstu. Alskyns stunur og andvörp heyrðust frá miklum fjölda manns sem lofaði Guð fyrir þennan dásamlega forseta, kjark hans og það hve samkvæmur sjálfum sér hann er. En er hann samkvæmur sjálfum sér?

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, ritar grein í Fréttablaðið í dag og sýnir þar fram á að forsetinn er alls ekki samkvæmur sjálfum sér í rökstuðningi sínum. Það er lærdómsríkt að lesa grein Þorsteins en hann kemst að eftirfarandi niðurstöðu eftir að hafa bent á nokkur dæmi um röksemdir forsetans í fyrri málum:

,,…Nú kemur enn nýr rökstuðningur um að valdið sé hjá forsetanum og þjóðinni en ekki Alþingi. Af þessu má sjá að forsetinn hefur aldrei verið samkvæmur sjálfum sér í rökstuðningi sínum.“

Orðræða og hávaði stjórnarandstöðunnar einkennist þessa daga af því sem hún kallar þrá hennar eftir sátt og samstarfi við ríkisstjórnina í Icesave málinu. Hún hrópar og stappar niður fótum yfir því að ríkisstjórnin slái á „,útrétta sáttarhönd.“

Einföldum verkamanni verður á að spyrja hverjir það hafi verið sem allt síðasta ár, með ótrúlega óbilgjarnri og gagnslausri orðafroðu, ólu af sér og ræktuðu það ósætti sem nú er talið aðalsynd ríkisstjórnarinnar.

Víst er stjórnarandstaðan komin í hring í öllu þessu Icesave máli og eltir á sér skottið eins unglingshvolpur á bæjarstétt. Nú vill hún endilega fá að vera með í að leysa málið og vafalítið er það til þess að koma hagsmunum flokkseigenda sinna að.

Það er stöðugt undrunarefni hvað stjórnmálamenn geta framleitt mikla froðu. Froðu sem á stuttum tíma hjaðnar og hverfur því að hún var að eiginlega ekkert nema loft.

3 svör við “Forsetinn, sáttin og froðan”

  1. Ólán að ekki sé búið að semja.Meðan ekki er samið um Iesave tapast nokkrir tugir milljarða á mánuði í þjóðarbúskapnum.Getum ekki verið í flokkapólítík og hanaati núna.HEIMILUM OG FYRIRTÆKJUM ER AÐ BLÆÐA ÚT.Mig vantar t.d vinnu .Hef fengið tvö atvinnuviðtöl þar sem heildarfjöldi umsækjenda er vel yfir 100 nær 120-130.“Guð blessi Ísland „í alvörunni.

  2. Já það er erfitt að átta sig á þessu klúðri og yfirlýsingum úr öllum áttum. Mér hefur samt fundist að forsetinn hefði átt að sjá sóma sinn í að segja af sér fyrir svona 14 mánuðum eftir þáttöku hans í þessu klúðri á alþjóðavettvangi. Einnig finnst mér með ólýkindum að stjórnmálamenn hafi ekki sameinaðst um að vinna sem einn að því að bjarga því sem bjargað var þegar þessi ósköp komu í ljós. Ég er ekki á móti að þjóðin fái að kjósa um málefni sín. En það á ekki að vera geðþótta ákvörðun eins manns og eru mörg mál sem eru enn meira áríðandi að fá að kjósa um. Þetta er örugglega ekki einfalt að koma samfélaginu í viðunandi ástand og hef ég þess vegna verið talsmaður þess að samþykkja þessi ósköp. Þetta mál er búið að taka í á annað ár og sé ég ekki annað að allt þetta ár fari í þetta eina. Á meðan eru óteljandi mál sem ekki er hægt að sinna fyrir alvöru. Kær kveðja.

  3. Nú ættu allir flokkar a.m.k. að geta sameinast um það að afnema synjunarvald forsetans. Í staðinn fáum við lög sem færa málskotsréttinn annað; tiltekinn fjöldi kjósenda og/eða tiltekinn fjöldi þingmanna gæti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu í mikilvægum málum. Kannski fáum við að lokum „beint lýðræði“.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.