Fyrr á árum var til Alþýðuflokkur. Samkvæmt skilningi mínum var hann flokkur alþýðunnar. Margt af fólkinu umhverfis mig kaus Alþýðuflokkinn. Á árunum 1959 til 1971 var til svokölluð Viðreisnarstjórn. Þá störfuðu saman Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur. Oft hefur verið sagt að það hafi verið góð ríkisstjórn.
En nú er enginn Alþýðuflokkur til. Og líklega aðeins ein manneskja, Jóhanna Sigurðardóttir, sem stendur undir því nafni að vera Alþýðuflokksmaður. Aðrir standa ekki undir því nafni og er það hluti af kreppunni. Einhversstaðar sást á prenti fyrir skömmu að Jóhanna Sigurðardóttir myndi hætta þegar þessi sorglega Samfylking stokkar upp í ráðherraliði sínu. Það eru ill tíðindi.
Þessa dagana eru jú flestar fregnir af heimi stjórnmálanna slæmar fregnir. Almenningur eygir ekki mikinn stuðning við sig í gerðum stjórnmálamanna. Leiðtogarnir hafa ekki sýnt þá forystu sem almenningur vonast eftir. Áhugi þeirra virðist fremur tengjast braski hinna fáu. Þess vegna talar fólk um að fá að kjósa til alþingis sem fyrst. En hvað verður í boði til að kjósa um?
Flokkarnir hafa hingað til ráðið listum sínum. Hafi líkur verið á að breytingar gætu orðið á flokksúrvalinu, þá hefur verið hætt við prófkosningar og flokkarnir raðað sjálfir á framboðslista sína. Þótt talað sé fjálglega um lýðræði þá fer heldur lítið fyrir því nema í umræðunni.
Í gegnum tíðina hefur þjóðin hlustað á nýtt fólk koma fram í aðdraganda kosninga með nýja rödd, nýjan tón. Ef og þegar það fólk komst að við hringborð flokkanna var fljótlega skipt um rödd og tón í því „fyrir liðsheildina.“
Maður spyr sig, gæti orðið til nýr Alþýðuflokkur sem stæði undir nafni? Eru til einstaklingar sem hugsanlega gætu komið sér saman og barist fyrir alþýðuna af einlægni? Það verður forvitnilegt að sjá hvað gerist á næstu mánuðum. Hvort boðið verði upp á eitthvað meira en skrum.
Þú kannt að orða það!!