Er Guð dauður?

Það varð uppi fótur og fit um árið þegar Nietzsche, hinn misvel þokkaði heimspekingur, staðhæfði að Guð væri dauður. Fyrst þegar þessi staðhæfing barst mér til eyrna, það var löngu áður en trúarsvæði sálar minnar virkjuðust, glotti ég kaldhæðnislega og þótti þessi rauðvínsmaður djarfur og ögrandi.

Næst heyrði ég um þetta þegar fáein guðsorð höfðu frjóvgast í hjarta mínu. Sá þá forsíðu af bandarísku vikublaði, Time eða Newsweek, man ekki gjörla hvoru, þar sem setningin fyllti síðuna. Fyrstu viðbrögð voru reiði. Reiðiviðbrögð við þessari árás á trú mína. Helga og háa. Trú sem var, að því er mér virðist í dag, byrjandaleg. Með orðinu byrjandaleg á ég við að hún hafi birt sig, þrátt fyrir undursamlegar innri reynslur, með yfirborðslegum skilningi, þar sem rætur höfðu ekki fengið tíma til að vaxa. En rót er að mestum hluta þekking.

Í lífi manna er mörgum fyrirbærum á svipaðan hátt komið. Tökum einfalt dæmi. Ökuleyfi. Hvað veit sautján ára unglingur um eðlisfræði bifreiðar? En hann ekur samt, og það á fullu. Sjálfumglaður þeytist hann um og agnúast yfir þeim sem tefja hann í umferðinni. Og því miður valda slíkir allt of mörgum slysum. Svipaður er vandi trúarinnar. Það reynir mikið á leiðbeinendurna eins og í flestum fögum. Ef þeir eru ekki starfi sínu vaxnir, munu lærisveinar þeirra ekki verða það heldur. „Hvort fær blindur leitt blindan? Munu ekki báðir falla í gryfju?”

Líkingin, „að falla í gröf,” vísar til veiðimennsku, sbr. „falla í snöru” (5. Mós 12:30), segir í Rætur málsins. Sýnist manni því að mishæfir leiðbeinendur, sem lent hafa í gryfju vanþekkingar og oft einnig þröngsýni, hljóti að vísa nemum sínum niður í þá sömu gröf sem þeir eru í, „og viljið að öll tilveran sé einungis til í ykkar mynd,” svo ég vitni í umsögn Nietzsches, um heimspekingana. „Lífið er drottnunarvilji,” sagði hann á öðrum stað.

Hvað um það. Nokkuð ljóst er að þessi „rosalega” setning, „Guð er dauður,” skuli vísa til þess, í hugsun Nietzsches, að menn hafi úthýst Guði úr hjarta sínu eða drepið hann þar og sett, viljandi eða af venþekkingu, allt önnur markmið í efsta sætið, sem Guð átti og á: „Þú skallt elska Drottinn Guð þinn af öllu hjarta, allri sálu, öllum huga og öllum mætti og náungann…” Orð sem engan veginn nægja tóm.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.