Og lífið skiptir um lit

Þeir voru með það gárungarnir, þegar við Ásta fluttum á póstsvæði 201 Kópavogur, að það væri á dreifbýlissvæði, ofar snjólínu. Svo glottu þeir. Búa sjálfir, í huganum, niðri á sléttum, skulum við ætla. Þeir skildu ekki að við vorum komin að þeim bæjarmörkum þar sem borgarysnum lýkur. Og unum afskaplega glöð við okkar hag.

Þessi hagur sem við unum svo glöð við, felst meðal annars í því, að á morgnanna, milli klukkan hálf sjö og hálf átta, setjumst við hjónakornin í sérpantaða stóla sem vísa út að hornglugga sem snýr næstum því í austur og norður og horfum til fjallanna og drekkum morgunkaffið okkar saman. Á sjöundu hæð. Og njótum þess hvern einasta dag. Á dreifbýlissvæðinu. Ofar snjólínu.

Það var svo í morgun, það hafði snjóað pínulítið og hitinn var vísisbreidd neðan við núll gráður og fölin jók birtuna til muna, að tilveran blés þessum elskulega dreifbýlisanda inn í sál mína. Og þegar ég tók að skafa hrím og hélu af bílrúðunum söng hjarta mitt af einskærri kátínu sem stundum kemur einhversstaðar innan að. Hvað sagði Ugla um slíka upplifun?

Svo kom nágranni minn að sínum bíl. „Góðan dag,” söng ég í áttina til hans. Hann horfði á mig nokkra stund. Dálítið lotinn, með sixpensara niður í augum og úlpu þétt um hálsinn. Hann sagði: „Þú syngur bara.” „Já er þetta ekki blessað. Snjóföl, hrím og héla, logn og hitinn rétt neðan við núll. Hvað viltu það betra?” svaraði ég og skóf skipulega af rúðunum.

„Mér finnst nú aldrei gaman að skafa,” sagði nágranni minn. „Hvað segirðu, er ekki gaman að skafa bílrúður. Elskan mín góða, láttu þér þykja það gaman og lífið skiptir um lit.” Svo tók hann að skafa af sínum bíl og miðstöðin hjá mér var byrjuð að þýða af framrúðunni og allt var laust á henni. Og þá tók ég undir með Louis Armstrong: „Oh, what a wonderful world.”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.