Rigning um land allt

Algeng veðurspá hljóðar þannig. Og ef spáð er blíðu um allt land og fólk hvatt til að fara léttklætt í ferð, þá rignir samt. Gjarnan. Við ákváðum að fara alla leið niður í Grasgarð síðastliðinn sunnudag. Langt síðan við komum þar. Úrkomulaust þegar við fórum af stað. „Er ekki vissara að hafa frakka með?” spurði karlinn. „Það á ekki að rigna, samkvæmt spá,” sagði konan. „Spá er nú bara spá,” sagði karlinn og þau fóru léttklædd af stað.

Grasgarðurinn tók fallega á móti okkur. Að vanda. Fátt fólk á ferli. Græni liturinn dýrlegur. Blómin í blóma. Breytingar til batnaðar víða. Stígar, rjóður stólar og borð.

Í Grasgarðinum

Tveir smástrákar leyndust í rjóðri við göngustíg. Þegar fólk, sem flest gekk um í rólegheitum, kom að rjóðrinu, stukku þeir fram og öskruðu ógurlega. Ákváðum við að leiðbeina þeim. Ræddum um gamalt fólk og hjartað í því, vanfærar konur og hugsanlegt barn í þeim og hættuna sem stafaði af hrekk þeirra. „Ekki vil ég lenda í því,” sagði sá styttri og þeir fóru af vettvangi.

Móðir og barn

Móðirin var enn að næra barnið sitt. Kraftmikil, örlát og verndandi. Eins og hún hefir gert í gegnum árin. Og nú kom súldin yfir. Við jukum hraðann og stefndum á kaffihúsið. Þegar þangað kom varð súldin að regni. Hlýju, elskulegu, fíngerðu regni en engin yfirhöfn með í ferðinni. „Tvo kaffi takk og eina sneið af bláberjatertu. Takk fyrir.” Fáeinir gestir sátu í makindum og nutu góðgerða.

Fólk í makindum

Allt í einu tók veisluklætt fólk að streyma að. Flestir höfðu með sér pakka í gjafaumbúðum og blómvendi. Auðsætt var að hér skyldi brúðkaupsveisla haldin. Og þá var mál til komið að hlaupa í spretti í bílinn.

Á Kjarvalsstöðum

Fórum yfir að Kjarvalsstöðum. Sáum þar stóra ljósmyndasýningu á vegum Listasafns Íslands og Kjarvalsstaða. Góð sýning sem fólk ætti að sjá. Og enduðum loks hjá gamla meistaranum í mosanum á Þingvöllum. Og enn var rigning um land allt.

Mosinn er

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.