ANTÓNÍUS

Hann var einsetumaður. Varð 105 ára gamall. Dó árið 300 eftir Krist. Hann var kristinn maður. Lifði trú sinni. Frásögnin af bókinni um líf hans hreif mig.

Hvað skyldi það nú vera sem hrífur við lestur um mann eins og Antóníus? Jú, það er sú hamingja og lífsfylling af trú á Guð sem líf hans mótaðist af. Lífsfylling. Það sem allir menn leita eftir. Og flestir leita annarsstaðar en í trú á himneskan föður. Trú á frelsarann Jesúm frá Nasaret.

Antóníus er sagður hafa verið einsetumaður. Heimsflóttamaður. Hvað er heimsflótti? Munkar og nunnur sem lifa í klaustrum eru gjarnan sögð heimsflóttafólk. Flóttafólk? Þar er ég ekki endilega sammála.

Ef litið er á heimsmyndina eins og hún er í dag, þá er ekki margt sem fær hjarta fólks til að gleðjast yfir. Um víða veröld er verið að drepa heilu þjóðirnar, kremja þær. Venjulegt fólk og börnin þess. Og aðrir hamast í ofsaveðri fjármagnsgræðgi og kaupæði þar sem fátt veitir lífsfyllingu.

Lífsfyllingu. Innri frið og kyrrð. Þá má segja sem svo að það sé varla mikil lífsfylling í þessu óveðri sem leiðtogar þjóða hafa komið á. Og almenningur á ekki um annað að velja en fylgja því ómannúðlega kerfi.

Þá er gott að geta farið í skjól. Skjól.

Þannig var þetta á dögum Antóníusar. Þannig er þetta enn í dag. Og sjaldan svakalegra en nú.

Og í ánægju minni með kynni af Antóníusi og litla hópnum sem Ágústínus segir frá, kom heldur illa við mig að lesa í bók Miltons um hatur hans á kaþólsku og munkareglum: 

„Meinlæta og munkahyskið allt

með sitt fánýtt ruglið, hvort sem er

kuflinn svartur, hvítur eða grár….“

(Paradísarmissir, 3. bók, 584.)

En „Paradise Lost“, er samt stórkostleg bók og þýðing  Jóns Erlendssonar á henni einskonar sigurverk og kallar á sérstaka umfjöllun sem ég er tæpast maður til.

Ég dáist samt að Antóníusi og „Höfðust þar við einhverjir þjónar þínir, fátækir í anda, en slíkra er himnaríki. Þar fundu þeir bók, er ævi Antóníusar er skráð á.“  Þetta segir í Játningum Vlll, 6.