Um vefinn

„Öllu er afmörkuð stund … og að tala hefir sinn tíma.“

Heimasíða þessi varð til skömmu eftir að ég var settur af vinnumarkaði. Þrátt fyrir mörg áhugamál þá fór mér eins og fleirum við slík tímamót, að til urðu lausar stundir sem ekki var svo auðvelt að fylla upp í með áhugaverðum verkefnum.

Fyrir hvatningu Brynjólfs Ólasonar ákvað ég að gera tilraun með að halda úti heimasíðu. Hefur Brynjólfur annast um allar tæknihliðar og leyst þau vandamál sem að rosknu höfði hafa steðjað. Þá hefur hann núna uppfært og endurnýjað síðuna eins og glöggir gestir hennar hafa vafalaust tekið eftir.

Ánægjulegt hefur verið að fylgjast með því hvað margir hafa lagt leið sína inn á vefinn. Er það umfram væntingar. Svo er og um jákvæð orð og athugasemdir sem lesendur hafa látið falla. Þau hafa hresst og uppörvað.

Netheimar hafa þroskast og vaxið og notkun þeirra breiðst út með miklum hraða síðustu ár. Fjöldi fólks tekið til við að blogga og birta orð sín og hugsanir á netinu og með því tekið meiri þátt í tilverunni en áður. Það er hið besta mál og segir manni að sá sem er nettengdur er ekki eyland. Hann getur bæði lesið hugrenningar annarra og talað til þeirra og verið með í hringiðu dagsins hinnar víðu veraldar. Hvort sem hann er ungur eða gamall, bundinn eða frjáls.

Með þeim orðum höldum við áfram um sinn.

Og þetta:

Hann lagði frá sér pokann sinn með bæklíngunum eftir Jón Pritt, smeygði sér úr treyunni og tók ofan hattinn; og fór að tína saman grjót og bera sig að gelda ögn uppí veggina. […]

Vegfarandi nokkur sér að ókunnur maður er farinn að laspra við garðana í þessu eyðikoti.

Hver ert þú, spyr þessi ferðamaður.

Hinn svarar: Ég er sá maður sem heimti aftur Paradís eftir að hún hafði leingi verið týnd, og gaf hana börnum sínum.

Hvað er slíkur maður að vilja hér, spurði vegfarandinn.
Ég hef fundið sannleikann og það land þar sem hann býr, áréttaði vegghleðslumaðurinn. Það er að vísu allmikilsvert. En nú skiftir mestu máli að reisa við aftur þennan vallargarð.

Síðan heldur Steinar bóndi áfram einsog ekkert hefði í skorist að leggja stein við stein í hina fornu veggi uns sólsett var í Hlíðum undir Hlíðunum.
(Paradísarheimt e. Halldór Kiljan Laxness).

25. október 2008
Óli Ágústar