Var að horfa á Kiljuna fyrir stundu. Það var skemmtilegur þáttur. Fjallað var um Steinar Sigurjónsson á flottan hátt. Hrós. Við Steinar áttum sjö eða átta bráðskemmtileg samtöl fáum árum fyrir andlát hans. Ræddum við bókmenntir, heimspeki og trúmál. Það var ákaflega skemmtilegt að ræða við hann. Við náðum vel saman og leið vel í samtölunum sem sum urðu verulega lengri en lagt var upp með.
Um þetta leyti var hann að skrifa bókina Sáðmenn. Hann ræddi hana við mig af mikilli ástríðu. „Nú skal ég láta þá hafa það,“ sagði hann. Á annarri kápusíðu fyrsta heftis bókarinnar segir: „Bókin hefur ekki fengist gefin út á þessu landi en verður prentuð og gefin út í áföngum hjá Vossforlagi í Amsterdam, flutt til þessa lands og fengin þeim sem kynnu að vilja lesa.“ Ég var svo heppinn að eignast bindin sjö í öskju.
Vafalaust var Steinar einskonar utangarðsmaður. Fór aðrar brautir en fjöldinn. Almenningur gerði ekki mikið með bækur hans, enda voru þær ekki „skrifaðar í Exel“ eins og Páll Baldvinsson komst svo laglega að orði um bækur kjörins „besta nútíma rithöfundar þjóðarinnar“. Það er einkar merkilegt að fylgjast með þróun vinsældalista skáldsagna á Íslandi. Allstaðar sýnist glitta í fingraför fjármagnsins.
Ástríða Steinars til að skrifa var mikil og sterk og helgaði hann líf sitt henni. Bragi Kristjónsson lýsti því allvel í þættinum þegar hann sagði að „ef ekki væri til blek, þá myndi Steinar opna sér æð og skrifa með blóði sínu.“
Þetta var góður Kiljuþáttur og takk.