Þel getur snúist við atorð eitt

Oft eru það litlu hversdagslegu atriðin sem móta þel dagsins. Hlakkandi til fimm vikna sumarleyfis sem hefst um komandi helgi, en það er auðvitað eiginkonan sem fær sumarleyfi en ekki ég, því ég var settur af fyrir nokkrum árum sem veldur því að þegar hún fær sumarleyfi þá fæ ég sumarleyfi með henni og hlakka til með henni og fer með henni og verð með henni, – og get ekki annað.

Smitaður af tilhlökkunartilfinningum eiginkonunnar tók ég saman hvað þyrfti að skipuleggja með svo langt frí í huga og áætlun um að flytja í litla frístundakofann okkar í Borgarfirði og búa þar. Tvennt varð efst á blaðinu: kaupa bækur og lyf sem dygðu í fimm vikur, um það bil. Þessi tvö atriði tók ég fyrir í gær og upplifði tvennskonar hugarþel af fólkinu sem ég skipti við.

Fyrra atriðið var með bækur. Við bókakaup felst vandinn, fyrir verkamenn á eftirlaunum, í verði bóka. Það hjálpar þó verulega að margar ágætar skáldsögur fást í kiljum, endurútgefnar, og á viðráðanlegu verði. Ásta mín hafði látið í ljós áhuga á bókinni um Kristófer Boone, en í vinnunni hennar er bókin hátt skrifuð, ekki síst vegna þess að vinnustaðurinn hennar samanstendur af ráðgjöfum sem veita foreldrum stuðning og leiðbeiningar við uppeldi sérstakra barna.

Í Eymundsson í Smáralind var mér vísað á bókina í stórum rekka sem hlaðinn er kiljum. Sértilboðsmiði er límdur á allar kiljurnar í rekkanum: „2 fyrir 2080,-“. Það þýddi að ef ég keypti eina bók, þá mundi hún kosta 1780 krónur en ef tvær, þá 2080. Seinni bókin því á 300 krónur. Ég valdi því aðra bók til viðbótar og fór nokkuð hress að kassanum.

Við kassann beið ung og elskuleg afgreiðslustúlka með eintak af fyrri útgáfu bókarinnar um Kristófer Boone og benti mér á verðið; Tilboð 990,-. Nú þurfti ég að hugsa. Stúlkan ilmaði af hlýju og brosti blíðlega. Fáein orð fóru okkar á milli. Samtalið endaði með því að ég sótti þriðju bókina í rekkann og greiddi fyrir þær allar 2971,-. Nú var komið að mér að brosa til stúkunnar, sagði og eitthvað fallegt við hana að skilnaði. Með áhrif af hugarþeli hennar í brjóstinu kvaddi ég Smáralind glaður í bragði.

Á miðri leið heim til mín, í brekkunum í Salahverfi, átti ég lyfseðla í apóteki. Ung stúlka afgreiddi mig. Hún var sviplaus en kurteis og nefndi verðið: 5.501,-. Ég staldraði við. Hafði aldrei þurft að borga svo mikið fyrir lyf. Sagði skoðun mína á því. Þá kom önnur kona fram, væntanlega verslunarstjóri og sagði að svona væri þetta bara, og yppti öxlum ákveðin á svipinn. Ánægjan af bókaviðskiptunum í Eymundsson hurfu nú og allt önnur tegund tilfinninga tók yfir.

Ósáttur fór ég heim. Hringdi í lyfjafræðing sem hefur reynst mér vel í gegnum árin. Upplýsti hún mig, undrandi á málinu, að apótekið hefði gert mistök. Útskýrði hún fyrir mér hvernig í því lægi. Ég fór aftur niður í apótek, með hækkaðan púls, og sagðist vera ósáttur og vildi fá leiðréttingu. Verslunarstjórinn, konan með ákveðna svipinn, tók við ábendingum mínum og kvittunum og ræddi við lyfjafræðing.

„Mistök mín,“ sagði lyfjafræðingurinn og baðst einlæglega afsökunar. Ítrekað. Engin svipbrigði sjáanleg hjá verslunarstjóranum. Ég fékk endurgreiddar 2864,- krónur.
Það munar um minna.

3 svör við “Þel getur snúist við atorð eitt”

  1. Því finnst mér að fólk ætti að reyna að skiptast sem oftast á hlýlegum tillitum og einlægum brosum í dagsins önn.

    Eigið sem bestar stundir í sveitinni.

  2. Svo er til fullt af fólki sem á góðar kiljur í stöflum og ekkert pláss eftir í bókahillum. Þér er velkomið að passa nokkrar bækur í sumarfríinu.

  3. Já brosa meira. Bros eru ókeypis 🙂 Óska ykkur hjónum góðrar ferðar í borgarfjörðinn og góðs sumarleyfis.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.