Þrír kunningjar

Hitti einn þeirra í gær. Það var á biðstofu og brátt kæmi að mér. Þá kom inn maður í biðstofuna, það gustaði af honum. Hann var í víðum frakka dökkum, síðum með belti um sig miðjan. Hann ræskti sig og hóstaði og lét eiginlega eins og hann ætti stærri hlutann í biðstofunni. Þegar hann var farinn úr frakkanum varð mér litið framan í hann og þá brá mér heldur betur í brún.

Síðast þegar ég sá hann var hann sléttur og greiddur og fríður og fasmikill og sjálfhverfur og sjálfsöruggur eins og hann væri fegursta blómið í garðinum. Reyndar held ég að hann hafi trúað því alla ævi og tamið sér orðfæri, klæðaburð og fas í stíl við það. En núna var mikil breyting orðin. Andlit hans hrukkótt eins og á háaldraðri konu, gulleitt og rýrt. Hreyfingar hans óöruggar og þótt hann reyndi að bera sig vel, eins og hann hafði ávalt gert, þá réði hann ekki við það. Ég rétti honum hendi og heilsaði honum og hann sagði, Sæll Óli, og svo sagði hann ekkert meira. Ég sagði heldur ekkert meira. Mér var brugðið.

Annan hitti ég í morgun. Það var í Krónunni í Húsgagnahöllinni. Ég var að gá að Garam Masala. Það fæst ekki þar fremur en í hinum tuttugu verslununum sem ég leitaði í. Allt í einu stóð gamall kunningi við hliðina á mér. Hann var lágvaxinn, snyrtilegur og afsakandi í fasi. Hann sagði: Er þetta ekki Óli? Ég rétti honum hendi og heilsaði honum og hann sagði: Nei en skemmtilegt. Svo hélt hann áfram að tala:

„Já veistu það ég er orðinn sjötíu og fimm steinhætti að vinna sjötíu er svo innilega ánægður og sjáðu hvað ég keypti svona ágætan rétt á fjögurhundruð það finnst mér ekki dýrt það eru allir kunningjar mínir farnir ég er oftast einn en ég er ánægður veistu það bara ég er svo afskaplega ánægður og hef ekkert að kvarta yfir heyrir þú stundum í gömlum félögum ég heyri ekki í neinum ef þú heyrir í þeim þá bið ég að heilsa þeim vertu sæll
að hverju ert þú að leita nú já gaman að hitta þig.“

Hver er þriðji kunninginn?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.