Eina ferðina enn

Stundum, þegar ég heyri nýja kandidata stjórnmálaflokkanna hrópa hvað þeir ætla að gera veröldina góða fyrir okkur hin, rifjast upp fyrir mér örlög nýrra kandidata stóran hluta síðustu aldar. Aftur og aftur gerðist það. Sama sagan. Allir höfðu þeir töfrasprota á lofti, stóryrði og tár í augunum, af ákafa og einlægum hetjumóði. Svo náðu sumir þeirra kosningu og hvað þá?

Þá voru þeir beislaðir og bundnir. Múlbundnir. Og æðstu prestar flokkanna hölluðu sér að þeim og sögðu föðurlega: „Það er liðsheildin sem skiptir máli.“ Og hverjir voru liðsheildin? Það voru þeir sem setið höfðu á valdastólunum árum saman og eignað sér efstu sætin, meirihluti sem hafði allt önnur viðhorf til breytinga en kandidatarnir, nýliðarnir, sem kunnu ekki einu sinni tungumál þeirrar tækni að segja aldrei sannleika í neinu máli en tala þó og tala. Tungumál sem hefur þróast árum saman og hefur það markmið eitt að blekkja. Blekkja hverja? Kjósendur, hvað annað?

Ég hef mikla og einlæga samúð með þeim kandidötum sem nú koma fram og halda að þeir komi hugsjónum sínum í framkvæmd nái þeir kosningu. Þeim mun ekki takast það. „Það er liðsheildin sem skiptir máli.“ En þeir sem eiga efstu valdastólanna í stjórnmálaflokkunum vita að ákafi og hugsjónir nýliðanna ganga í augun á kjósendum og leyfa þeim að sprikla og hvetja þá fremur en letja. Það gæti gefið atkvæði. Síðan verður það „liðsheildin sem skiptir máli.“

Eina ferðina enn.

4 svör við “Eina ferðina enn”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.