Að hugsa skýrt

„Það verður kannski seint sannað að skýr hugsun leiði til betra lífs en ég hef lengi haft þá trú að nauðsynlegt sé að heimspekingar fari út í samfélagið og tali við fólk, líkt og ég hef gert í starfi mínu meðal fanga, um gildi lífsins og yfirleitt allar þær hugmyndir sem heimspekingar fást við að reyna að skilja.” „… Það eru dæmi þess á meðal þeirra fanga sem ég hef kennt að þeir hafi breytt lífssýn sinni…”

Orð þessi eru tekin úr grein um Pál S. Árdal, heimspeking, sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 24. maí s.l. og Jörundur Guðmundsson skrifar. Páll S. Árdal, sem lést fyrr á þessu ári, var fyrsti íslenski heimspekingurinn til að hljóta alþjóðlega viðurkenningu fyrir störf sín. Það vekur verulega athygli að sjá að svo menntaður og virtur fræðimaður skuli hafa stigið út úr fílbeinsturni fags síns til að upplýsa og örva menn við lægstu skilyrði mannlegrar tilveru og hjálpa þeim til að „hugsa skýrt.” Slík dæmi eru varla mörg.

Í bókinni, Í skjóli heimspekinnar, eftir Pál Skúlason, heimspeking, segir: „Kant skýrir svo hvað hann á við með notkun skynseminnar á opinberum vettvangi. Ég á við, segir hann, „að sérfróður maður beiti skynsemi sinni frammi fyrir almenningi, þ.e.lesendahópi sínum.”” (bls.66). Munurinn á þessu viðhorfi og aðferð Páls S. Árdals er að Páll S. Árdal fór til fanganna sem engin von var til að mundu verða lesendur hans án persónulegrar hvatningar og opnaði þeim nýja sýn sem vakti hjá þeim áhuga á að hugsa, að iðka hugsun, hugsa skýrt og skilja.

Það er þetta með skilninginn sem svo oft sker úr um vegferðina. Meistari viskunnar, Jesús frá Nasaret, vissi um nauðsyn þess að lærisveinar hans skildu það sem hann sagði. Kemur það vel fram í frásögunni um sáðmanninn sem fór út að sá. Hann sagði: „Heyrið þá hvað dæmisagan um sáðmanninn merkir: Þegar einhver heyrir orðið um ríkið og skilur ekki, þá kemur hinn vondi og rænir því sem sáð var í hjarta hans.” Og síðar segir hann: „En það sem sáð var í góða jörð, merkir þann, sem heyrir orðið og skilur það.”

Það kemur raunar víða fram að lykillinn að samfélagi Krists við lærisveina sína grundvallaðist á gagnkvæmri elsku. Elska og þekking voru aflið sem tengdi þá við sannleikann sem umbylti lífi þeirra. Álykta má að þekkingin hafi vakið með Páli S. Árdal þá elsku til annarra manna sem knúði hann til að heimsækja fangana í fangelsunum til þess að bjarga lífi þeirra sem vildu bjargast. Lífsandinn mikli. Kærleikurinn.

Hvað sagði Platon um þekkinguna og elskuna?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.