Samtal á Svarfhóli

„Þú ert með heilmikið skegg.“
„Mikið? Það telst nú varla mikið.“
„Þú ert einsog jólasveinn.“
„Er ég það?“
„Já, ég sé ekki betur.“
„Allt í lagi. Ef þér líður betur með það.“

Við sátum undir austurvegg íbúðarhússins. Veðrið var gott og þægilegt að spjalla. Skarðsheiði í hitamóðu fjær, Melkot og Flóðatangi nær. Og Norðurá kyrrlát á leið til sjávar.
Við sátum þarna tveir, ég og Rabbi á Svarfhóli.

Þetta var á ástríðulitlum degi uppi í Borgarfirði. Ég hafði ekið á geðlitlum hraða um sveitirnar og rifjað þá staði þar sem ég hafði starfað ungur. Fyrst á Svarfhóli. Ellefu ára. Það var ekki þægilegt til að byrja með. Einhverskonar höfðingjabragur á heimilinu. Ég var óvanur höfðingjum.

Það bjargaði mér að vera settur í herbergi með Rabba. Hann var sjö árum eldri og úr Reykjavík eins og ég. Feður okkar þekktust. Rafn var blíðskapar strákur, laglegur og glaðvær og með tinnusvart hár. Hann reyndist mér vel.

Þegar ég grenjaði af leiðindum og saknaði mömmu minnar, á kvöldin uppi í herbergi, spjallaði hann við mig og hressti mig við. Setti sig í sporin mín og dreifði huga mínum. Eiginlega tók hann mig pínulítið að sér. Svo hafði hann mig með í ýmsu sem hann gerði og mér fór að þykja vænt um hann.

Á þessum árum var seld mjólk frá Svarfhóli til kvennaskólans á Varmalandi. Rabbi sá um flutninginn á jeppa heimilisins. Farið var annan hvern dag og fékk ég stundum að fara með. Stúlkurnar flykktust í kringum Rabba þegar hann kom með mjólkina.

Athyglin átti vel við hann og naut hann sín vel og allt fas hans breyttist. Ég stóð eins og rola álengdar og undrandi og beið eftir að hann kæmi til sjálfs sín. Á heimleiðinni hló hann og gerði að gamni sínu hamingjusamur og geislandi. Ég horfði á hann með aðdáun og hvað hann skipti faglega um gír á jeppanum.

Þetta kom upp í huga minn í morgun þegar ég leit í spegil og sá að ég hafði ekki snyrt skeggið á mér um hríð. „Þú ert eins og jólasveinn,“ sagði ég við spegilinn og glottið á Rabba rifjaðist upp. Minningarnar um hann eru mér kærar.

2 svör við “Samtal á Svarfhóli”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.