Benni danski og Systa á sautján

Það ríkti kátína í salnum. Starfsfólkið, um þrjátíu manns, dustaði af vélum og gekk frá fyrir helgina. Það var föstudagur. Síðasti dagur mánaðarins og útborgun. Þetta var um mánaðamótin júní og júlí.

Yngra fólkið hló og kankaðist á. Þeir eldri kímdu. Allir virtust hlakka til helgarinnar. Og launaumslagið hýrgaði. Nema Gunnar. Yngsti maðurinn á svæðinu. Hann var hryggur. Hafði fengið viðtal við forstjórann fyrr um daginn.

Þrír menn sátu hjá forstjóranum. Allir í stórum leðursófum. Ábúðarmiklir. Gunnar spurði skjálfandi hvort mögulegt væri að hann kæmist á samning um iðnnám. ,,Ég held þú hafir ekkert í það,“ sagði forstjórinn. ,,Ég hef ekki áhuga á að sitja uppi með væskil?“

Gunnar bakkaði út úr skrifstofu forstjórans. Lotinn og niðurlútur kom hann inn í vélasalinn. Hann gekk meðfram veggnum í átt að útgöngunni. Lalli á löppinni, eldri maður, fylgdist með honum. Hann var trúnaðarmaður forstjórans. Lapti öllu í hann um verkafólkið. Ef honum var í nöp við einhvern átti sá enga von.

Svo hringdi bjallan. Fólk tók yfirhafnir og fór út. Einn og einn átti bíl. Sumir voru sóttir af maka. Aðrir fóru út á stoppustöð og tóku strætó. Benni danski og Systa á sautján héldust í hendur. Þau áttu reiðhjól. Og helgin tók við.

Á mánudagsmorgni voru svo allir mættir aftur. Nema Gunnar. Og þegar hringt var í tíukaffi gekk fólkið rólega til kaffistofunnar. Allir áttu sín föstu sæti. Benni danski settist ekki, heldur stóð hjá Systu sinni og drakk kaffið standandi. Þetta vakti athygli. Einhver spurði Benna hvað væri að. Hann svaraði:

,,Við fór með rútan á Tingvöll. Litla tjaldið og allt. Það var svakalega heitt sól. Við fann svona blett á milli trjáin. Og lá á teppi hjá tjaldið allur sunnudagurinn. Ég brenna mikið á bakið og rassinn. Íslenska sólin er svakalegt heitt.“ ,,En Systa?“ spurði einhver. ,,Hún slapp mikið betra.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.