Jólabókapælingar

Stundum eru viðhafðar matvælakynningar. Þá koma gestir aðvífandi og kynna sér krásir með því m.a. að smakka á góðgætinu. Þeir velja sér gjarnan, á einnota disk, lítilræði af þessu og smávegis af hinu. Leggja sig fram um að meta bragð og gæði. Það getur verið lærdómsríkt að mæta á svona kynningar. Eftir eina umferð reynir maður svo að mynda sér skoðun á því hvað manni féll best. Fær sér aftur af því og kinkar kolli.

Þetta er ekki ósvipað með bækur í risavöxnu bókaflóði. Að því undanskildu að manni gefst ekki kostur á að smakka á nema örfáum þeirra og það með því að mæta á upplestrarstundir höfunda. Ekki hafa allir þrek eða áhuga á sækja slíka kynningarfundi. Finnst kannski að þar skipti höfundurinn meira máli en bókin hans.

Á mínum bæ eigum við því láni að fagna að okkur berast á hverju ári fáeinar bækur. Sumar kaupum við, þótt ríkisstjórn velferðarinnar sé um það bil að tálga af okkur alla getu til þess. Nokkrar fáum við gefnar, t.d. á jólum og fyllumst gleði og þakklæti fyrir, þótt við vitum svo sem sjaldnast hvort líkur séu á að okkur falli bækurnar.

Ég er þar staddur núna í þessum jólabókapælingum að hafa smakkað á nokkrum þeirra. Engri lokið. Er enn að vænta bókarinnar sem tekur mig, grípur mig og heldur mér föngnum. Allt til enda. Og knýr mig til að lesa sig aftur. Vonandi kemur að því. Á margar minningar um slík yndisjól.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.