Eyvindur og Halla

Í dag áttum við hjónin erindi vestur á Seltjarnarnes. Vorum boðin í miðdagsveislu hjá kærum vinum. Það er alllöng ferð úr efri byggðum Kópavogs, en við búum þar ofar ,,snjólínu“ eins og einn kunningi okkar komst að orði þegar við fluttum þangað.

Við ákváðum að aka niður Laugaveg, svona til tilbreytingar, því ferðum okkar til miðbæjar Reykjavíkur fækkar verulega. Það var hlýtt í veðri, logn og ofurlítil súld og greinilegt að borgarbúar upplifðu vorkomuna, því að á gangstéttum beggja vegna var krökkt af fólki.

Það mátti greina allskyns fólk, heimamenn og útlendinga og flæddi fólkið ýmis upp götuna eða niður. Margir voru eingöngu að skoða sig um eða í búðaglugga, aðrir með pinkla sem þeir höfðu verslað. Þá var svo að sjá, en við ókum löturhægt, að setið væri við öll borð í veitingahúsum, fólk sem sat og spjallaði og masaði yfir kaffi og köku.

Þegar í Bankastræti kom var mannfjöldinn enn þéttari og urðum við að stansa í nokkur skipti til að hleypa fólki yfir götuna, fólki sem fannst það eiga heiminn og bílar vera aðskotakvikindi. Í sálinni var ég sammála fólkinu og lifði mig inn í tilveru þess og amsturs. Loks ætluðum við ekki að komast inn í Austurstræti fyrir gangandi fólki.

Það var fólk allstaðar og maður sá kliðinn þótt hann heyrðist ekki. Loks fékk ég málið og sagði við Ástu mína, en hún ók okkur: „Sérðu allt þetta fólk. Þetta er miðbærinn sem við vorum fastagestir í á yngri árum. Þekktum allt og alla og áttum hlutdeild í hverri einustu gangstéttarhellu, hverri búðarholu og strætóum og öllu hinu?

Ég finn fyrir einmanakennd að hugsa til þess hvar við búum. Við fögnum yfir því að búa í blokk þar sem við hittum aldrei nágranna okkar, fögnum yfir hljóðlátu húsi og erum eiginlega orðin eins og Eyvindur og Halla. Ha, Ásta. Heyrirðu hvað ég segi? Eins og Eyvindur og Halla ein úti í eyðimörkinni. Er það ekki dálítið svakalegt. ,, Ásta, hvað finnst þér?“

Hún beygði núna og ók umhverfis Ingólfstorg og áfram í vestur. Ég endurtók: „Ha, Ásta, Eyvindur og Halla. Hvað finnst þér um það?
Eftir nokkra stund sagði hún: ,,Á ekki að beygja hér, Eyvindur minn?“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.