Menningarlegt ágæti á nýju ári

Við tókum ekki ákvörðun um að fara í sveitina fyrr en á nýársdagsmorgni. Hefðum betur farið daginn áður vegna hávaða og reykjarmakks. Ókum í fögru veðri áleiðis upp i Borgarfjörð á messutíma. Hvalfjörður eins og spegilgler. Ísing á veginum alla leiðina. Umferð lítil.

Við hlýddum á útvarpsmessu frá Dómkirkjunni og nutum góðrar ræðu biskupsins, herra Karls Sigurbjörnssonar. Bíll, næstur á eftir okkur, var kominn skuggalega nærri afturstuðaranum á okkar bíl þegar við ókum hjá móteli Venusi og annar á hæla honum. Gaf ég stefnuljós norður Borgarfjarðarbraut því tímanlega og dró úr hraðanum.

Kom nú vel í ljós hve hálkan var mikil því bíllinn neitaði að hægja á og mátti svo sem engu muna að við færum þvert yfir Borgarfjarðarbrautina og út af. En sluppum með skrekkinn. Frostið á leiðinni var á bilinu níu til fimmtán gráður og ísing út á ystu vegabrúnir. Það var stillilogn og héraðið baðað í nýárssól. Fjörðurinn lagður.

Við komuna í kofann okkar hlýddum við á Ólaf forseta flytja áramótaræðu sína. Orð hans um ráðningu dómara við dómskerfi landsins voru athyglisverð. Hugðist ég lesa ræðu hans í Morgunblaðinu í dag en þar er hún ekki. Sama má segja um ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra. Hún er þar ekki heldur.

Mig minnir að undanfarin ár hafi ræður þeirra þriggja, biskups, forseta og forsætisráðherra, ávallt verið birtar í heild sinni í fyrsta blaði Morgunblaðsins á nýju ári. Nú halda aðrir ritstjórar á pennum þar. Um kaffileytið horfðum við á glæsilega Nýárstónleika í Vínarborg sem sýndir voru í sjónvarpi og hin þokkafulla Meryl Streep gantaðist um kvöldið.

Að venju höfðum við bókatöskuna með. Ásta sökkti sér í Böðvar frá Kirkjubóli og mátti ekkert vera að því að hlusta á mig þegar ég gat ekki orða bundist yfir ýmsum beinskeyttum setningum Ragnars í Smára. Bæði vorum við sæl með bækurnar okkar.

Við hlýddum á vísnaþátt Iðunnar áttræðrar og loks þátt Eiríks Guðmundssonar um Umbreytingar Publiusar Ovidiusar Naso í þýðingu Kristjáns Árnasonar. Sterk löngun hafði gripið mig fyrir jólin til að eignast bókina en eftir þáttinn þróaðist sú löngun í girnd. Hefur bókinni þegar verið áætlaður staður við hlið þeirra Hómers og Eneasars.

Ein af perlum Rásar eitt eru þættir þeirra Ævars Kjartanssonar og Páls Skúlasonar á sunnudagsmorgnum, Heimur hugmyndanna. Verð að segja að mér þykja þeir með því albesta sem útvarpið býður upp á þessi misserin.

Þessir þrír fyrstu dagar ársins i lífi okkar Ástu minnar voru með svoddan miklum menningarlegum ágætum að ég get einfaldlega ekki orða bundist. Og ef árið verður í svipuðum anda þrátt fyrir ört minnkandi afkomu og kjör þá er okkur eiginlega ekki vorkunn. Að svo stöddu. Ég þvaðra þetta af einskærri gleði yfir góðri byrjun á nýju ári. Þrátt fyrir allt.

4 svör við “Menningarlegt ágæti á nýju ári”

  1. Eg óska ykkur báðum góðs nýs árs, árs gleði og menningar,friðar og blessunar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.