Maður í gulum slopp

Hann settist á móti mér. Var klæddur í gulan slopp og var ber að ofan undir sloppnum. Hann skimaði um. Svo festi hann augun á mér. Og tók að tala.

-Þær settu mig í þennan slopp svo mér yrði ekki kalt. Mér var ekkert kalt. Manni er ekkert kalt á þessum dögum. Alltaf blíða. Ert þú að fara í svona? Þetta er ekkert mál.- Stúlkan ætlaði samt aldrei að finna æð. Meira hvað þær eru mislagnar að finna æðar. En ég lá þarna og átti ekkert val. Hún gafst upp á vinstri eftir þrjár stungur. Svo reyndi hún við hægri. Hún meiddi mig.

Maðurinn talaði svo til viðstöðulaust. Hann virtist tala jafnmikið við sjálfan sig og við mig. Kannski var hann ekkert að tala við mig. Kannski var hann bara að tala til að tala. Skrítið þegar menn fá svona málæði. Aldrei fæ ég svona málæði. Ekki á biðstofum að minnsta kosti.

Einhvern veginn fannst mér ég þekkja manninn. Ég skaut á hann augunum en kom honum ekki fyrir mig. Mikið er óþægilegt þegar maður kemur fólki ekki fyrir sig og veit samt að maður á að þekkja það. Kannski höfum við unnið saman. Hver veit. Kannski frændi minn. Ég hef aldrei verið frændrækinn. Hann hélt áfram að tala.

-Ert þú að fara í svona? Spurði hann og horfði á mig. Ég svaraði engu. Mér finnst ekki alltaf auðvelt að tala um hvað sem er við hvern sem er. En hann lét sig ekki. -Blessaður vertu, þetta er ekkert mál. Það er búið að taka úr mér blóð sjö sinnum á árinu. Nóg í kepp. Ha, ha.

Hann hélt áfram: -Svo renndi hún hausnum á mér inn í segulapparatið og sagði: –Vertu grafkyrr og ekki kyngja. Ég stillti mig af. Þá spurði hún um kennitöluna mína. Skrítið. Fyrst segir hún manni að vera alveg grafkyrrum og vill svo láta mann tala. Hvernig átti ég að svara henni og vera alveg grafkyrr? Svo talaði hún um skuggaefni og mér hitnaði í æðunum og vélin fór að suða og ég var grafkyrr.

Þar sem ég sat og hlustaði á hann buna þessu öllu út úr sér fannst mér allt í einu eins og ég væri að kveikja á því hver hann er. Þá kom ung kona með hruma aldraða móður sína inn og þær settust. Eitthvað átti hún í basli með þá gömlu. Hún vildi fara heim. Unga konan reyndi að sefa hana. Hún talaði fallega til hennar og sagði: –Mamma mín þetta og mamma mín hitt. En sú gamla andmælti og sagði í sífellu: -Nú skulum við bara fara heim.

Læknir í hvítum fötum kom aðvífandi og sagði við þann málglaða að myndatakan hefði tekist og hann mætti fara. Þá reis maðurinn á fætur, klæddi sig úr gula sloppnum og sagði stundarhátt: -Nakin kom ég af móðurkviði. Svo fór hann fram í afgreiðslu ber að ofan og virtist ætla þannig út á götu. Stúlkurnar kölluðu á hann. -Halló, manni, ætlar þú ekki að klæða þig? Þetta var á Egilsgötunni.

Þegar ég allnokkru seinna var kominn út í bíl og búinn að spenna beltið rann upp fyrir ljós. Ég hef oft hitt manninn þegar ég einn í læknastússi. Auðvitað var þetta hann.

Eitt andsvar við „Maður í gulum slopp“

  1. Conversations like that are depressing, because there are indeed so many important things in life to talk about.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.