Hvað halda stjórnmálamenn um venjulegt fólk?

Lítið um pistlaskrif hjá mér í október til þessa. Hef samt skrifað nokkra og hent í ruslakörfuna. Ruslakörfur eru þarfaþing.

Rykið sem þyrlast upp af stjórnmálafólkinu er svo mikið að varla sést út úr augum. Og stundum alls ekki. Það er íhugunarefni, í ljósi allrar þvælunnar sem borin er á borð, hvað stjórnmálamenn halda um venjulegt fólk.

Það er eiginlega alveg sama hver þeirra talar og um hvað þeir tala, það er engin leið að henda reiður á kjarna máls. Flestir tala þeir í hring, og ekki bara í hring, heldur í hring eftir hring. Orðræður þeirra í eðli sínu ábyrgðarlítið snakk sem virðist hafa það markmið helst að gera lítið úr andstæðingum og rugla venjulegt fólk í ríminu. Nema þeir séu sjálfir áttavilltir og hafi misst stefnuna.

Þegar forystufólk Sjálfstæðisflokksins tjáir sig í fjölmiðlum, undrast maður í hvert sinn að svo stór flokkur skuli ekki hafa öflugri leiðtogum á að skipa. Nema þá að alvörufólk vilji ekki leggja sig niður við stjórnmál. Enda planið lágt um þessar mundir.

Ekki tekur betra við þegar framsóknarmenn taka til máls og hlaupa um með sápukúlurnar sínar. Orðfátt fylgist venjulegt fólk með leik þeirra að glópagullinu.

Framferði Vinstri grænna síðustu vikur rímar ekki vel við framboðsræður þeirra á vordögum. Hefur mikil gengisfelling orðið í þeirra hópi og ræst þær spár áhorfenda að „léttara er um að tala en í að komast“ þegar um er að ræða að bera afkomu og lífshamingju venjulegs fólks fyrir brjósti. Nú virðast hjartans mál þeirra fremur snúast um annað en vandamál hinna verst settu.

Margir tala illa um Samfylkinguna og virðast leggja áherslu á að koma Jóhönnu Sigurðar frá völdum. Hagsmunahóparnir sem í gegnum árin hafa setið að kjötkötlum þjóðarinnar leggja nú kapp á að koma árum sínum aftur í keipana. Það er samt ekki það sem þjóðina vantar.

Kannski eru íslensk stjórnmál svo sýkt af hugsanaferli valdafíknar, hagsmunapots og klíkuskapar að hugmyndafræði þeirra nái ekki að lyfta sér upp fyrir óværuna. Það væri samt falleg framtíðarsýn að fram stigu menn í stjórnmálum sem hefðu persónulega burði til að gæta hagsmuna allra landsmanna og teldu það eðlilegt viðfangsefni og réttlæti að jafna svo kjörin að þeir fátækustu kæmust líka af.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.