Slagur vindhörpunnar

„Pabbi, hver er það sem leikur á vindhörpuna? spurði Litli-Kornelíus, sem var þá sex ára.
Það er auðvitað vindurinn, svaraði elsti bróðirinn.
Nei, það eru kerúbarnir, er það ekki, pabbi? spurði Síríus, og leit á föður sinn stórum tryllingslegum augum.
Hringjarinn hneigði höfuðið til samþykkis, annars hugar…!
Og Síríus gaf síðar ódauðlega lýsingu á því á fullorðinsaldri í ljóði sínu: Kerúbar fóru hjá.“

Ósköp væri lífið magurt ef ekki væru bækur. Ef ekki væru skáld og rithöfundar sem helguðu líf sitt orðum. Skyldi vera hægt að hugsa án orða? Það er stórkostlegt að eiga tungumál. Móðurmál og geta haft tjáskipti við annað fólk. Ekki síst þegar skýjað er í sálinni og skyggni skammt.

Ég endurnýjaði vináttu mína, um helgina, við gamla og góða vini frá Færeyjum. Kynntist þeim fyrir liðlega fjörutíu árum þegar við Ásta tókum okkur til og lásum stóran hluta bókasafnsins á Selfossi. Þar á meðal var sagan af Kornelíusi vindhörpugerðarmanni og öðrum ógleymanlegum snillingum.

Höfundur þeirra, William Heinesen, kallaði þá samt glataða. Hann skrifaði á dönsku De fortabte spillemænd sem kom út 1950. Á íslensku kom hún í þýðingu Guðfinnu Þorsteinsdóttur 1957 og hlaut nafnið Slagur vindhörpunnar. Á færeysku 1975 og heitir Glataðu spælimenninir. Loks kom hún aftur út á íslensku 1984, þá í þýðingu Þorgeirs Þorgeirssonar og ber heitið Glataðir snillingar.

Undanfarna daga hef ég horfið inn í þessa undursamlegu veröld snillingana hans Heinesens. Lifað með þeim í sorgum þeirra og gleði og endurnýjað þau afbragðs kynni sem ég hafði af þeim um árið. Já, eða árin. Þarna eru þeir allir, Mortensen magister, Ankersen sparisjóðsstjóri og ofstækis trúmaður, Matti Gokk sonur hans sem alls ekki var sonur hans, skáldið Síríus og Orfeus tónlistarmann. Svo einhverjir séu nefndir.

Og ekki gleyma Krabbasjólanum og Nágalanum né nafna mínum Óla. Í þýðingu Guðfinnu heitir hann Óli brennivín. Í þýðingu Þorgeirs, Óli sprútt, en í færeysku þýðingunni Óli Brandy. Ég kynntist honum sem Óla brennivín en finnst Óli Brandy afskaplega virðulegt nafn þó hrynjandinn í brennivíninu beri af. Í frumútgáfunni, á dönsku, heitir hann Ole Brandy.

Með öllu þessu sérkennilega og skrítna fólki hef ég verið síðustu daga og unað vel. Farið með því í gegnum furðuleg tilbrigði lífsins og notið samvistanna. Ósköp væri lífið magurt ef ekki væru bækur.

2 svör við “Slagur vindhörpunnar”

  1. Sæll. Gaman að lesa um færeysku ræðarana. Ég er mjög hrifin af öllu færeysku og þykir vænt um þessa frændþjóð okkar. Ég fór á Ólafsvöku 1999. Þá sá ég hvað mikið þeir leggja upp úr kappróðri miðað við okkur. Þeir byrja sumir að æfa strax fyrir næstu vöku!Ég hef þrisvar komið til Færeyja og þar er gestrisnin ómæld. Á færeyska vinkonu sem flutti til Íslands 16 ára.
    Bestu kveðjur.
    Bjössasystir.

  2. Ferjumaðurinn er langafi barna minna í föðurætt móður þeirra

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.