Og því spyr ég prófessorinn

Um tíuleytið í gærkvöldi hringdi kona í heimasímann. Hún flutti alllanga ræðu um erindi sitt. Kvaðst hún vera að gera könnun fyrir háskólann á Bifröst sem prófessor ( ég greip ekki nafnið) stæði fyrir og ég hefði lent i 2200 manna úrtaki, hvort ég féllist á að svara spurningum þeirra. Ég féllst á það.

Svo kom þessi langi listi með margvíslegum spurningum. Flestar áttu þær rætur í stjórnmálum og voru sumar, að því er mér virtist, vera í kross við aðrar sem þegar höfðu verið bornar fram. Ég svaraði af bestu getu. Stundum vafðist mér þó tungan um höfuð.

Þegar prófessorar standa að baki kannanna og spurninga þá þorir ekki hversdagsblesi eins og ég að viðhafa gagnrýni svo að ég skilaði auðu þegar ég skildi ekki forsendur spurninganna. Loks kom þar að spurt var um trúmál: Ertu mjög mikið trúaður,- mikið trúaður, – meðaltrúaður,- fremur lítið trúaður, -lítið trúaður,- trúlaus?

Nú stamaði ég verulega. Er hægt að spyrja svona? Hvaða vit er í svona spurningu? Og í framhaldi af vangaveltum um spurninguna leyfi ég mér að spyrja prófessorinn sem samdi spurninguna:

Ertu mjög mikið giftur,- fremur mikið giftur,- meðal giftur,- fremur lítið giftur,- lítið giftur,- ógiftur?

Eitt andsvar við „Og því spyr ég prófessorinn“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.