Af hverju þarf 63 alþingismenn á Íslandi?

Oft hefur mér dottið hug að spyrja hvaða rök styðji það að á alþingi sitji 63 þingmenn. Þessi spurning vaknar að nýju þessa dagana þegar við blasir að ríkisstjórnin með ríkulegan þingmeirihluta er að knýja þúsundir fjölskyldna í þrot með því er virðist, viljandi seinagangi.

Af hverju nægir ekki að hafa til dæmis 33 þingmenn og enga aðstoðarmenn og nota þá peninga sem sparast til að brauðfæða þá sem ekki eiga fyrir mat handa börnunum sínum. Það kemur hvergi fram að það sé ávinningur fyrir þjóðina að hafa svo stóran hóp af afkastalitlu fólki á tiltölulega stórum launum.

Öll fyrirtæki sem starfa af ábyrgð fækka starfsmönnum á erfiðum tímum. Af hverju ekki alþingi líka? Vonandi tekst ráðherrunum sem töluðu af ákafa um hve annt væri um „litla manninn“ að sýna vilja sinn í verki og fækka ráðuneytum um helming, hið minnsta. Svo að orð og æði fari saman.

Annars hjó ég eftir því að þegar forsætisráðherrann taldi upp fyrir fréttamanni hvaða málum ríkisstjórnin ynni að af kappi, þá nefndi hann velferðarmálin síðast í röðinni. Öðruvísi mér áður brá.

Í hádegisfréttum útvarps var sagt frá því að í einum barnaskólanna styrkti vildarvinur skólans nokkurn hóp barna með því að greiða matinn fyrir börnin. Ástæðan væri sú að foreldrar þeirra ættu ekki fyrir matnum. Í sama fréttatíma var sagt frá auknum kvíða meðal barna vegna þess að þau vissu ekki hvort þau fengju kvöldmat heima hjá sér.

Af hverju þarf 63 alþingismenn á Íslandi? Hvaða gagn vinna þeir þjóðinni?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.