Í dag – og græna myndin

Í dag fer ég til baka í huganum. Fyrst um átta ár. Þá gengum við Ásta í æskuspor okkar sjálfra. Í ágústbyrjun. Gróðurinn á hátindi blómans. Það var mikið regn. Vatnið sat í haugum á gróðrinum. Slóð kom eftir fætur okkar. Í einni bóka Halldórs Laxness segir að grasið væri svo grænt að sýndist vera blátt. Þetta var þannig dagur.

Myndin hér fyrir neðan er tekin í Skógarhrauni í landi Gilsbakka í Hvítársíðu. Nánar tiltekið við Litla Fljót skammt frá Stínuflöt og Strípstjörnum. Ásta er með bakpoka. Í honum er nesti. Sjálfur bar ég myndavél í mínum bakpoka. Regnið rann niður í hálsmálið og eyðilagði farsímann minn.

Græna myndin og regnið
Græna myndin og regnið

Smellið á myndina og sjáið stærri gerð hennar. Ef vel tekst til sést heim til Gilsbakka efst á myndinni. Sjá má að túnslætti er lokið. Kolstaðahnúkur er lengst til hægri efst.

Fjörutíu árum áður höfðum við gengið um þessar slóðir. Sumarstelpa og sumarstrákur í sveit. Endurminningin vekur margslungnar tilfinningar. Fiðring. Við vorum á byrjunarreit. Þegar frú Ásta kemur heim úr vinnu síðdegis í dag er hún jafnframt komin í frí fram yfir páska. Hún átti inni sumarleyfisdaga frá síðasta ári. Og við stefnum upp í Borgarfjörð um helgina. Í kofann okkar á bökkum Hvítár. Litlatré.

Ég velti mér upp úr þessu í dag horfandi á regnið á grænu myndinni.

2 svör við “Í dag – og græna myndin”

  1. Segi nú bara, sömuleiðis kæri Arnbjörn. Bestu óskir til þín og þíns fólks. Væntanlega verður margt af því í kringnum þig um páskana. Innilegar kveðjur frá okkur Ástu.
    Gleðilega páska.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.